Áður óséðar ferðamyndir af Díönu á Ítalíu

Díana prinsessa á snekkju við Ítalíu.
Díana prinsessa á snekkju við Ítalíu. Skjáskot/Instagram

Ítalski viðskiptamaðurinn Giancarlo Giammetti, einn af stofnendum ítalska tískuhússins Valentino, birti myndir af Díönu prinsessu á instagramsíðu sinni í gær. Á myndunum má meðal annars sjá áður óséðar myndir af Díönu í fríi á Ítalíu. 

Giametti segir í fyrsta innleggi sínu að sjónvarpsþættirnir The Crown hafi enn og aftur minnt á erfiðleika Díönu prinsessu. Af því tilefni birti hann myndir af Díönu í fötum frá Valentino. Hann birti einnig myndir úr einkasafni sínu þar sem sjá má Díönu í sundfötum á snekkju. 

Myndirnar voru teknar árið 1990 að því er fram kemur á vef Daily Mail. Á snekkjunni má sjá Díönu líklega í kærkomu sumarfríi og Karl Bretaprins hvergi nærri. Á myndinni frá ferðalaginu má sjá Díönu, fatahönnuðinn Valentino og prinsinn Kyril af Saxlandi-Coburg. Díana er í litríku bikiníi og fjólublárri skyrtu. Hún var greinilega á Ítalíu en eldfjallaeyjuna Stramboli úti fyrir Sikiley má sjá í bakgrunninum. 

Viðskiptamaðurinn Giammetti birti mynd úr sömu ferð í haust eins og sjá má hér að neðan. 

mbl.is