„Spurði hvort ég hefði ekkert þarfara að gera“

Ragnar Sigurðsson grisjar skóginn sinn og selur um leið jólatré.
Ragnar Sigurðsson grisjar skóginn sinn og selur um leið jólatré. Ljósmynd/Aðsend

Ragnar Sigurðsson, skógar- og ferðaþjónustubóndi á Kirkjubóli í Hvítársíðu í Borgarfirði, sendir jólatré heim að dyrum í ár. Ragnar byrjaði með skógrækt árið 2004 en skóginn þarf að grisja reglulega sem hann gerir meðal annars rétt fyrir jól.

Ásamt skógræktinni rekur Ragnar Hótel Á, notalegt sveitahótel sem stendur skammt frá bökkum Hvítár. Skógurinn á jörðinni er nú um 300 hektarar en Ragnar byrjaði að planta trjám árið 2004. Eldri trén eru fjórir til sex metrar á hæð en yngri trén nýtir hann í jólatré. 

„Gamall nágranni kom og spurði hvort ég hefði ekkert þarfara að gera þegar ég byrjaði. Svo 10 til 15 árum seinna kom sami maður aftur. Þegar hann áttaði sig á því að þarna gat vaxið skógur sagði hann að þetta hefði líklega ekki verið svo vitlaust. Þetta er fyrst og fremst nytjaskógur og líka gerður til að fá skjólið. Það breytist náttúrlega allt með tilkomu skógarins, honum fylgir til dæmis mikið fuglalíf.“

Þegar trén stækka þurfa þau pláss og því þarf að grisja skóginn. Ragnar segir tilvalið að fella tré og nýta þau sem jólatré. Í skóginum er aðallega að finna stafafuru en sjálfur hefur Ragnar alltaf kosið stafafuruna sem jólatré.

„Þetta er eiginlega eina tréð sem fellir ekki barrið. Hún stendur í allt að þrjá mánuði inni án þess að það falli af,“ segir Ragnar sem selur brakandi fersk tré ef svo má að orði komast. „Ég tek þetta jafnóðum. Þau eru alltaf nýfelld þegar þau fara af stað.“

„Það eru hátt í tíu ár síðan ég byrjaði á að bjóða upp á jólatré. Í ár ákváðum við að prófa að auglýsa á netinu og erum með heimsendingu. Það er fyrst og fremst hugsað í þeim tilgangi að fólk þurfi ekki að standa í biðröðum eftir jólatrjám. Við sendum aðallega á Vesturlandi en svo er ekkert mál að senda hvert sem er.“

Ragnar mælir með stafafuru þar sem hún getur staðið lengi.
Ragnar mælir með stafafuru þar sem hún getur staðið lengi. Ljósmynd/Aðsend

Jólatré sem keypt eru úti í búð eru kannski ræktuð í Danmörku og flutt með skipum til landsins og því ekki jafn umhverfisvæn eins og þau sem skógarbændur á borð við Ragnar selja.

„Það er í sjálfu sér alltof lítil áhersla lögð á að rækta jólatré á Íslandi. Hagsmunir kaupmanna leika þar ansi stórt hlutverk held ég. Það er líka mikil álagning á innflutt tré,“ segir Ragnar. Þegar hann hóf skógrækt var umræða um jákvæð áhrif skógræktar ekki eins áberandi og í dag. Hann er ánægður með umræðuna en segir jafnframt að það megi enn gera betur í skógrækt á Íslandi. 

Jóletré heim í hús


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert