„Flestir detta; þannig er lífið“

Árdís með hundinum sínum honum Bubba.
Árdís með hundinum sínum honum Bubba.

Árdís Þórðardóttir er hugrökk ævintýramanneskja sem kann að gera gott úr flestu. Hún er mikið fyrir íslenska náttúru og býr yfir æðruleysi og þolinmæði sem er heillandi. Árdís ferðast um á stórum jeppa og segist vera meistari í að detta og standa upp aftur. Þá reynslu hafi hún fengið sem Íslandsmeistari í alpagreinum í fjölmörg ár. 

„Ég huga vel að heilsunni. Ég geng sex til sjö kílómetra daglega og fer líka í sundlaugarnar þegar þær eru opnar til slökunar og gleði. Þá stunda ég yndislestur þessa mánuðina og umgengst fjölskyldu mína, vini og systkini. Ég er að leitast við að finna gott jafnvægi í lífinu mínu þar sem ærlegheit eru í heiðri höfð.“

Árdís er eigandi ferðaþjónustufyrirtækis, Troll Travel, en hefur þurft að taka sér frí frá störfum líkt og fleiri í hennar grein. 

Farin að spila á gítar

Hvað ertu að gera um þessar mundir?   

„Þegar fólk hætti að ferðast í mars síðastliðnum taldi ég að það myndi ekki standa yfir lengi. Ég ákvað að líta á stöðvunina í ferðaþjónustunni, sem kærkomið frí hjá mér minnug þess, sem oft var sagt á mínu æskuheimili „þetta gengur yfir“.

Þannig hef ég verið að njóta ömmuhlutverksins. Það er magnað að upplifa hvað litlu krílin mín ná að opna hjarta mitt. Lítil börn hafa oft svo gaman af tónlist og það hef ég líka. Ég reyndi að læra á gítar á unglingsárunum en hafði ekki þolinmæðina. Ég náði samt tökum á klarínetti. Nýlega keypti ég mér gítar og er komin með pínu sigg á puttana. Bráðum næ ég vonandi að spila undir í söng litlu barnanna. Svo verður að koma í ljós hvar þetta ævintýri endar. En svona vinnulega séð hef ég verið að skoða marga mögulega áfangastaði fyrir gesti, sem ég hlakka til að upplifa með þeim þegar þar að kemur. Núna er útlit fyrir að víða verði farið að bólusetja fyrir kórónuveiruna í næsta mánuði. Margir leiðtogar fjölmennu þjóðanna í Evrópu telja að fyrir vorið verði búið að bólusetja stóran hluta þegnanna þar.“

Ljósmynd sem Árdís tók í Grímsey í júní á þessu …
Ljósmynd sem Árdís tók í Grímsey í júní á þessu ári.

Fyrirtækið Toll Travel hefur að mestu verið að skipuleggja dagsferðir frá Reykjavík. 

„Ég hef líka verið að vinna með bandarískri ferðaskrifstofu, sem sérhæfir sig í ferðum fyrir nemendur í efri stigum grunnskóla og í menntaskóla. Þá höfum við tekið að okkur alls konar verkefni í lausamennsku fyrir stórar Íslenskar ferðaskrifstofur. Þetta þrennt hefur verið uppistaðan í rekstrinum.

Gangurinn hjá fyrirtækinu var ljómandi fram í mars á þessu ári. Fín verkefnastaða. Svo kom kórónuveiran og slökkti á þessum markaði. Hann hreinlega botnfraus. Afbókanir hrúguðust inn. Þannig var það bara hvarvetna í greininni.

Í dag er ég að viðhalda tengslum við viðskiptavinina. Taka þátt með þeim í að kynna hvað er og hefur verið í boði á Íslandi fyrir skólahópana. Enn fremur hef ég verið að skoða margvíslega nýja möguleika fyrir slíka ferðalanga einkum gönguferðir um náttúru Íslands. Í stuttu máli felast verkefnin þessa dagana í að vera tilbúin þegar ferðamenn fara að ferðast á ný. Það gerist, fólk fer að ferðast aftur.“

Jarðfræðingar segja Ísland paradís

Getur þú nært ferðagyðjuna í þér þrátt fyrir hömlur á ferðum landsmanna?

„Já, það hef ég gert heldur betur á þessu ári hér heima. Ég fer ekki til útlanda þessi árin nema að hafa erindi. Ég er hugfangin af landinu okkar og er glöð með það. Ísland er einstakt á svo margan hátt. Jarðfræðingarnir segja Ísland paradís fyrir fólk með áhuga á jarðfræði.

Það er svo sannarlega rétt. Ég hef svo oft séð gestina djúpt snortna við sigdældina á Þingvöllum eða fyrir norðan á gosbeltinu þar. Svo eru það jöklarnir, vatnið, jarðhitinn og samspil þessara þátta að ekki sé talað um veðráttuna, rokið, rigninguna, éljaganginn, síbreytileikann og fólkið, söguna og menninguna.

Í sumar hef ég farið á marga undursamlega staði, sem ég hef ekki komið á áður og ég er staðráðin í að heimsækja þá marga aftur. Verandi fædd og uppalin á Siglufirði hef ég í áratugi horft norður til Grímseyjar oft í hillingum eins og ég sé að horfa á misháa pönnuköku á sjóndeildarhringnum. Ég hef hugsað með mér að ég þurfi að komast til Grímseyjar en einhvern vegin aldrei látið af því verða fyrr en nú snemmsumars. Það var dásamleg ferð. Fólk sem hefur yndi af fuglum verður hugfangið.

Ég hef aldrei upplifað aðra eins fuglamergð. Þeir eru alls staðar. Í Grímsey þarf svo sannarlega ekki að leita að lundanum. Hann er bara þarna. Þá er fólkið í Grímsey einstaklega geðfellt og greiðvikið. Þar eru málin leyst fljótt og vel. Eyjaskeggjar greinilega vanir að bjarga sér. Ég get nefnt ýmsa aðra eftirminnilega staði, sem ég sótti heim í sumar eins og gilin þrjú, Þakgil, Stuðlagil og Seljahjallagil, sem eru mjög ólíkar perlur en vel þess virði að heimsækja. Þá kom ég að fossunum þremur í Brúará; Hlauptungufossi, Miðfossi og Brúarfossi, gekk líka að Brúarárskörðum, sem er dásamlegt að gera. Ég keyrði líka norðurströnd Melrakkasléttunnar og kom á Raufarhöfn í fyrsta sinn. Þar er mikli fuglaparadís og víða hægt að njóta einveru. Að lokum nefni ég að á björtum sólríkum haustdegi heimsótti ég Veiðivötn í fyrsta sinn og stóðst ekki mátið að koma líka við í Gjánni. Þessir staðir skörtuðu sínu fegursta. Útsýnið úr Veiðivötnum til stærstu þriggja jökla landsins var óviðjafnanlegt. Mín reynsla er nú einfaldlega sú að eftir því sem ég ferðast meira um Ísland fjölgar eftirsóknarverðum stöðum til að skoða og njóta. Möguleikarnir eru endalausir.“

Hvaða stað nálægt Reykjavík mælir þú með að fara að skoða núna? 

„Í túnfætinum fer ég oft á Úlfarsfell, Búrfellsgjá, Heiðmörk, Hólmsheiði og í Elliðaárdalinn og Gálgahraun svo ég nefni frábæra þægilega göngustaði. Vilji fólk fara í smá ökutúr er Reykjanesið í miklu uppáhaldi hjá mér. Seltún, Selatangar, Hópsnesið og Reykjanestáin svo ég nefni nokkra staði. Þar er líka fjöldi göngustíga eins og Árnastígur – Skipastígur, Sandgerðisvegur og fjöldi annarra. Þegar ég ferðast um Reykjanesið sunnanvert kem ég oft við Hjá Höllu í Grindavík, sem er einn af mörgum frábæru veitingastöðum á Reykjanesi.“

Stuðlagil í ágúst á þessu ári.
Stuðlagil í ágúst á þessu ári.

Dugleg að detta og standa upp aftur

Hvað gerðir þú áður en þú fórst að leiðsegja?    

„Ég hef alltaf verið í fyrirtækjarekstri. Ég var áður í kaupmennsku, inn- og útflutningi og einnig kvikmyndadreifingu. Það var líka áhugavert. Þar var ég brautryðjandi einkum á gæludýramarkaðnum og við rekstur VIDEOheima, sem margir kvikmyndaáhugamenn og konur muna eftir. Hvort tveggja líflegir áhugaverðir markaðir en ólíkir. Nú er annar kominn á netið en hinn blómstrar sem aldrei fyrr. Ferðaþjónustan toppar allt annað, sem ég hef verið að fást við. Það á svo vel við mig að vera með ungu fólki úti í náttúru Íslands og leitast við að opna augu þess fyrir hinu smáa jafnt því stóra. Þessar öfgar er svo sannarlega auðvelt að finna víða hér.“

Hvað mun framtíðin fela í sér?

„Ég er bjartsýnn brautryðjandi og eins og einkennir þá manngerð hefur mér oft tekist að gera fært þar sem aðrir segja ófært. Ég er samt ekki óskeikul fremur en aðrir og lendi stundum úti á túni ef svo má segja. Flestir detta; þannig er lífið. Ég var forfallin skíðakona á mínum yngri árum, Íslandsmeistari í alpagreinum í fjölmörg ár. Þá lærði ég mjög vel að detta og það sem skipti ekki minna máli að vera snögg að standa upp. Svona keppnisreynsla úr íþróttunum hefur reynst mér vel. Það er ómetanlegt að vera góður í þessu tvennu að detta og að standa upp. Vitanlega veit ég ekki nákvæmlega hvað bíður í framtíðinni. En ég veit að Ísland er einstakur áfangastaður fyrir ferðamenn. Landið var það fyrir kórónuveiruna og verður enn eftirsóknarverðara eftir hana. Ég trúi því að ferðaþjónustan nái sér út úr núverandi þrengingum fljótt og farsællega. Það er ótrúlega margt klárt, sanngjarnt fólk  að leggja sig fram um allt land við undirbúning til að geta hafist handa við að þjónusta verðandi gesti eins vel og þeim er unnt þegar þeir ákveða að sækja Ísland heim.“

Fegurðin var mikil í Mórudal í ágúst.
Fegurðin var mikil í Mórudal í ágúst.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert