Hjón frá Havaí hafa verið handtekin fyrir að fljúga heim til Havaí frá San Francisco í Kaliforníu vitandi að þau væru smituð af Covid-19.
Hjónin Wesley Moribe og Courtney Peterson og eitt barn flugu með United Airlines frá San Francisco til Lihue á Havaí 29. nóvember síðastliðinn.
Samkvæmt bráðabirgðaskýrslu hafði þeim verið skipað að fara í einangrun í San Francisco og fljúga ekki. Hjónin höfðu farið í skimun fyrir Covid-19 og fengið jákvæða niðurstöðu.
Þrátt fyrir að vita af jákvæðu smiti hjá sér fóru þau í flug og settu aðra farþega í hættu vísvitandi samkvæmt skýrslu lögreglu.
Hjónin voru handtekin við komuna til Havaí og ákærð fyrir að leggja líf annarra í hættu. Þau losnuðu úr fangelsi gegn tryggingu. Barninu var komið fyrir í umsjón ættingja en ekki er vitað hvort það sé barn þeirra hjóna.