Los Angeles eftirminnilegasta borgin

Sunna Dís ætlar að fara í ferðalög þegar ástandið er …
Sunna Dís ætlar að fara í ferðalög þegar ástandið er yfirstaðið.

Sunna Dís Jónasdóttir sálfræðinemi við Háskólann í Reykjavík er jógakennari og höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferðaraðili. Hún á einn son og er mikil áhugamanneskja um ferðalög og lífið og tilveruna almennt. 

Hún er að skrifa Bsc-ritgerðina sína þessa dagana sem mun fjalla um áhrif áfallastreituröskunar á minni auk þess að hafa sótt um í meistaranámi á erlendri grundu í umhverfisfræði og sjálfbærum vísindum. 

Hvaða ferðalag sem þú hefur farið stendur upp úr öðrum ferðalögum að þínu mati?

„Ég myndi segja að það hefði verið að ferðast til Los Angeles árið 2014. Það var mjög  framandi og ekki verra að ég fékk að búa í sex vikur á Hollywood Boulevard. Staðurinn er algjörlega andstæðan við Ísland eða Reykjavík og sér á báti í allri Ameríku eins og mér var tjáð og ég sá. Þetta var fyrsta skiptið sem ég fór til Bandaríkjanna og það til borgar englanna! Ég iðkaði jóga í flottustu jógastöð sem ég hef farið í, Corepower Yoga, í þrjár til fjórar vikur. Ég hitti þó nokkuð margar stjörnur, pantaði mér íslenskan bjór á flottum veitingastað við hlið Bens Stillers svo fátt eitt sé nefnt. Virkilega súrrealískt og eðlilegt allt saman fyrir staðinn.“ 

Áttu þér uppáhaldsströnd sem þú hefur farið á?

„Uppáhaldsströndin er klárlega strandlengjan í Santa Monica í Los Angeles og svo var ströndin á grísku eyjunni Ios ekki svo slæm heldur.“

Hver er besti matur sem þú hefur smakkað í veröldinni?

„Það er grískur kebab að nafni Souvlaki í Grikklandi ásamt gelato-ís. Algjörlega það besta sem ég hef smakkað.“ 

Áttu þér draumaferðalag?

„Já, svo sannarlega. Það væri á þann veg að ég myndi byrja á að fara til Suður-Portúgals, heimsækja Mooji-setrið sem heitir Monte Sahaja í tvær til þrjár vikur, færa mig svo yfir til Suður-Indlands í næsta andlega setur hjá Sadhguru (Isha Yoga Center) og dvelja þar í nokkrar vikur og ferðast jafnvel eitthvað til Góu. Eftir þessa djúpu næringu myndi ég svo ferðast til Nýja-Sjálands og vera þar í tvo til þrá mánuði og kynnast fólkinu og jafnvel kíkja á nærliggjandi eyjar. Það væri draumur í dós!“

Ef þú gætir farið utan yfir helgi að versla, hvert færir þú?

„Ég myndi klárlega fara til Slóvakíu eins og planið mitt var þetta haustið. Ég elska Mið-Evrópu og mig hefur alltaf langað til Slóvakíu. Ég væri væntanlega í borginni Košice að skoða fallega listmuni og að kaupa einstaka hluti og föt. Annars toppar fátt „Römbluna“ í Barcelona ef maður ætlar sér að versla.“

Sunna Dís er í sálfræðinámi og ætlar að fara í …
Sunna Dís er í sálfræðinámi og ætlar að fara í meistaranám á erlendri grundu í framhaldinu.

Hvað gerirðu alltaf á ferðalögum?

„Ég finn mér oftast jógastúdíó, opna danstíma með helst fimmrytmadansi, og litla persónulega veitingastaði eða kaffihús. Ég reyni ef það er hægt að fara í sjóinn á hverjum stað. Náttúran skiptir mig einnig miklu máli.“

En aldrei?

„Það myndi vera að drekka vatnið úr krananum. Svo að passa mig að vera ekki ein úti á kvöldin.“

Hvað ætlarðu að gera þegar ástandið verður eðlilegt aftur?

„Ferðast meira.“

mbl.is