Tenerife opin fyrir ferðamenn með neikvætt próf

Tenerife.
Tenerife. DESIREE MARTIN

Þeir ferðamenn sem geta framvísað neikvæðu kórónuveiruprófi og sýnt fram á bókaða gistingu á hóteli eða gistiheimili mega fara til Tenerife yfir jólahátíðirnar. Greint var frá því í gærkvöldi að landamærum Tenerife yrði lokað á miðnætti annað kvöld og að sérstakar undanþágur yrðu gerðar á því. Þær reglur verða í gildi í 14 daga. Canarian Weekly greinir frá.

Aðeins Tenerife verður lokað en ekki öllum Kanaríeyjunum en fjöldi smita er hæstur á Tenerife af öllum eyjunum. 

Íbúar Tenerife geta ferðast frjálst á milli eyjanna. Þeir ferðamenn sem ætla að dvelja á heimili íbúa á Tenerife fá ekki undanþágu, aðeins þeir sem ætla að dvelja á hóteli. 

Útgöngubann er í gildi frá klukkan 22 á kvöldin til 6 að morgni að undanskildu aðfangadagskvöldi og gamlárskvöldi en þá er útgöngubann frá klukkan 00:30 til klukkan 6. Áður máttu 10 koma saman á stórhátíðardögum en nú hefur það verið lækkað niður í 6 og aðeins tvær fjölskyldur mega koma saman. Börn undir sex ára teljast ekki þar með.

Veitingastaðir og barir mega vera opnir til klukkan 21.30 að kvöldi og mega aðeins taka við helmingi af leyfðum hámarksfjölda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert