Óhræddur við ritstörf í suðurhöfum

Eiríkur Bergmann stundar fræðistörf á Tenerife.
Eiríkur Bergmann stundar fræðistörf á Tenerife. Ljósmynd/Aðsend

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor dvelur nú á Tenerife þar sem hann stundar fræðistörf og nýtur mannlífsins í sólinni. Hann hefur verið á spænsku eyjunni í einn og hálfan mánuð og kippir sér ekki mikið upp við fréttaflutning af versnandi ástandi enda hefur ástandið á Tenerife ekki verið verra en á Íslandi í kórónuveirufaraldrinum.

„Það er reyndar einkenni á þessari umræðu allri saman að hvar sem menn eru í veröldinni þá hættir þeim til að ýkja ástandið annars staðar. Það er augljós ótti við útlönd sem blæs upp í þessu ástandi. Ef maður skoðar ástandið sér maður að það er síst verra hér en á Íslandi. Ef þú ferð yfir þetta ár þá hefur ástandið hér ekki verið verra en heima. Spann býr jú við eitt öflugasta heilbrigðiskerfi veraldar þannig að það er óþarfi að vera hræddur hér,“ segir Eiríkur.

Eiríkur verður sáralítið var við ástandið sem fylgir kórónuveirufaraldrinum en tekur helst eftir því í margmenni á fjölförnum stöðum. Hann segir veitingastaði vera kjaftfulla en opið er til 11 á kvöldin. Hertar aðgerðir á eyjunni taka gildi á miðnætti annað kvöld. Þjónustutími veitingastaða styttist um klukkutíma og segir Eiríkur það vera stóru breytinguna. Einnig eru hertar aðgerðir á landamærum. Eiríkur er í spænskunámi og stundar jóga og allt slíkt heldur áfram eins og ekkert hafi ískorist.

Þetta er í fyrsta skipti sem Eiríkur sinnir fræðistörfum á Tenerife en hann er vanur að fara lengra frá Íslandi á veturna. 

„Ég hef gert þetta á hverju ári. Verið í burtu í einn mánuð, svona yfirleitt yfir dimmasta tímann, en hef verið í Rómönsku Ameríku fram til þessa. Í Argentínu, Síle, Brasilíu og Mexíkó núna síðast í janúar. Það er hins vegar ekki hægt núna. Þess vegna er ég hér, af því maður kemst ekkert sunnar.“

Hvað gerir það fyrir þig að fara suður á bóginn?

„Það er tvennt, þetta er náttúrulega fyrst og fremst hugsað út frá mínu starfi en sem fræðimaður vinn ég við skriftir. Til að það gerist eitthvað af almennilegu viti í þeim þarf maður að fara í burtu yfir dálítið drjúgan tíma þar sem maður getur einbeitt sér að ritverkunum svona sæmilega truflunarlítið og laus úr þessu amstri hversdagsins. Mér finnst það vera á þeim tímum sem stíflan brestur og galdurinn gerist.

Síðan er það líka að við búum náttúrlega mjög norðarlega á jarðarkringlunni þar sem eru dimmir vetur og kaldir og þá er það svona aukabónus að sækja á suðurhvelið á þessum árstíma. Við höfum yfirleitt farið í janúar en núna voru bara þessar aðstæður svona og svo er það líka þannig að það er ævintýralega flókið að ferðast núna. Það þarf að fylla út alls konar vottorð og ég veit ekki hvað og hvað. Þannig að ég ákvað að fara bara í lengri tíma en núna er reyndar fjölskyldan komin.“

Á milli þess sem Eiríkur situr við skriftir nýtur hann þess að vera í sólinni með fjölskyldunni sem fer á ströndina á hverjum degi. 

„Jólin verða náttúrlega með allt öðru sniði en vanalega, maður er bara í sól og sumri. Það þarf að aðlagast því. Þetta verða bara rólegheitajól. Maður er laus undan þessum föstu póstum sem fylgja venjulegum jólum heima. Hefðbundnar jólahefðir víkja fyrir annarri upplifun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert