Flutti að heiman 15 ára til að stunda brettasport

Ylfa Rúnarsdóttir lifir fyrir að komast á snjóbretti.
Ylfa Rúnarsdóttir lifir fyrir að komast á snjóbretti. Ljósmynd/Aðsend

Ylfa Rúnarsdóttir ein fremsta snjóbrettakona landsins. Hún flutti til Svíþjóðar 15 ára gömul til að leggja áherslu á snjóbretti í menntaskóla. Í dag ferðast hún um heiminn á veturna og leikur listir sínar á brettinu. Kórónuveirufaraldurinn hefur aðeins sett strik í reikninginn en Ylfa er hvergi nærri af baki dottin og tekur þátt í að ryðja brautina fyrir konur í íþróttinni. 

Ylfa býr í Svíþjóð en undir venjulegum kringumstæðum ferðast hún mikið um heiminn á veturna. „Síðasti vetur var heldur óhefðbundinn og mjög stuttur af sökum kórónuveirunnar. Ég var stödd í Bandaríkjunum en fór heim þremur dögum áður en landmærunum þar var lokað,“ segir Ylfa. 

Menntaskólinn sem Ylfa fór í bauð upp á afreksíþróttabraut í vetraríþróttum. Ylfa segist hafa verið nýbyrjuð á snjóbretti þegar hún tók þá stóru ákvörðun að flytja að heiman til lands sem hún hafði aldrei áður komið til. 

„Foreldrar mínir, sem höfðu engan áhuga á vetraríþróttum, hafa alltaf stutt mig í þessu 100%. Alveg frá þessu óhefðbundna vali að flytja til Svíþjóðar til að komast nær snæviþöktum draumum og um leið sjálfri mér, jafnvel þótt ég hafi ekki vitað það þá. Þau eru virkilega flottar fyrirmyndir fyrir mig.“

Fór fyrst á skíðasvæði þegar hún prófaði snjóbretti

Ylfa fékk hjólabretti í sumargjöf þegar hún var 13 ára ásamt Ými bróður sínum sem sumir kannast við undir listamannsnafninu Whyrun. „Kannski var það adrenalín, kannski var það vinahópurinn eða þessi tilfinning sem maður fær við að læra eitthvað nýtt. Bæði hjólbretti og snjóbretti eru svona nördasport, svolítið eins og raunverulegur tölvuleikur. Því meira sem maður lærir langar mann að læra meira,“ segir Ylfa um áhugann á hjólabrettinu. 

Í kjölfar þess að Ylfa byrjaði á hjólabretti fékk hún áhuga á að prófa snjóbretti. „Ég fékk svo snjóbretti í jólagjöf eftir nokkurt suð og ég man virkilega vel eftir fyrsta snjóbrettinu mínu. Mamma hafði fundið bretti, bindingar og skó á Bland.is. Skórnir voru í stærð 37,5, svona til að fæturnir gætu stækkað svolítið. Ég nota skóstærð 35 enn í dag,“ segir Ylfa og hlær. 

Þrátt fyrir þennan mikla áhuga hafði Ylfa aldrei komið á skíðasvæði áður en hún byrjaði á snjóbretti. Það var ekki alltaf auðvelt að komast upp í fjall. Systkinin og vinir þeirra gerðu sér það að góðu að renna sér í brekkum í Árbænum og byggja litla palla og hoppa niður tröppur í hverfinu. „Svo þegar ég varð aðeins eldri kynntist ég fólki með bílpróf sem var á leiðinni í Bláfjöll og suðaði far hjá þeim. Stundum tók ég rútuna og stundum húkkaði ég far upp í fjall á Olís í Norðlingaholti.“

Hvað er skemmtilegt við sportið?

„Lífsstíllinn, fólkið sem maður kynnist. Fyrir mér er það einhvers konar frelsi, adrenalín en samt kyrrð sem kemur yfir mann þegar maður er í augnablikinu. Ég held að það sé einhvers konar hugleiðsla. Þegar maður er að gera hættulega hluti og setur sig í aðstæður sem maður veit að geta haft afleiðingar verður maður að kunna að sleppa öllu öðru og vera bara í núinu. Maður finnur fyrir ótta og fullt af öðrum tilfinningum en á sama tíma einhvers konar hugarró.“

Konur standa höllum fæti

Konur eru alltaf að verða meira og meira áberandi í jaðaríþróttum eins og snjóbrettaíþróttin er. Ylfa segir að það sé eins og það sé bara stundum pláss fyrir konur í snjóbrettasenunni. Konur fái oft verkefni þegar þarf að sitja fyrir en þá væri einnig hægt að ráða fyrirsætur. Þegar ræðir um myndbönd og atriði sem krefjast smá áhættu teljast karlmenn oft hentugri. 

„Það hafa samt alltaf verið einstaka konur sem hafa skapað sér eða fengið tækifæri, jafnvel farið alla leið í snjóbrettasenunni. Núna virðist vera vakning í því að fá fleiri konur inn á sjónarsviðið. Það er mjög jákvætt og ég held að samfélagsmiðlar spili stóran þátt í því. Með hjálp samfélagsmiðla er hægt að koma sér á framfæri án þess að hafa fjármagn. Þetta hefur gert það að verkum að konur geta fylgst með öðrum snjóbrettakonum, fengið innblástur frá þeim, borið sig saman og hjálpast þannig að við að gera ómögulega hluti mögulega. Þetta er ein af mörgum leiðum til þess að standa saman og sýna snjóbrettaheiminum að það er pláss fyrir meira en eina konu í einu og það eru engin takmörk fyrir því hvað konur geta gert.“

Margar uppbrennandi konur hætta í sportinu. Þegar Ylfa var yngri hugsaði hún eins og margir karlmenn hugsa, að konurnar hefðu ekki meira að gefa eða þær þyldu ekki pressuna og álagið. Í dag veit hún að ástæðan er líklega peningaleysi, fá verkefni og lítil fjárhagsleg aðstoð í boði fyrir konur. „Það er sorglegt en satt að margar fyrirmyndir mínar hafa hætt eða gefist upp á því að reyna að ná sínum toppi vegna þess að þær gefast upp á að synda endalaust á móti straumum,“ segir Ylfa. 

Ylfa leggur sitt af mörkum fyrir konur í snjóbrettaíþróttinni.
Ylfa leggur sitt af mörkum fyrir konur í snjóbrettaíþróttinni. Ljósmynd/Aðsend

Hún vonast til þess að gefast aldrei upp en fyrir nokkrum árum var hún þó við það að gefa atvinnukonudrauminn upp á bátinn. „Ég fékk svo margar falskar vonir í gegnum árin. Ég bara hreinlega vissi að ég næði aldrei langt svo ég hætti að láta mig dreyma um það og var á snjóbretti einfaldlega vegna þess að ég elskaði það svo mikið.“

Að blanda peningum og pólitík við snjóbretti var ekki þess virði hugsaði Ylfa. Nokkrum árum seinna er hún samt komin á stað sem hún ætlaði sér aldrei. „Einhvern veginn er ég samt komin á þann stað núna. Með því er ég að reyna að leggja mitt af mörkum svo að næsta kona á eftir mér þurfi ekki að ganga í gegnum það, kannski, vonandi, getur hún bara einbeitt sér að því að vera snjóbrettakona! Að því sögðu er ég samt ekki þar að ég geti lifað á snjóbrettaiðkun, ég hef aðra vinnu á sumrin og haustin og hér um bil hver einasta króna sem ég safna mér fer í snjóbrettalífsstílinn.“

Dreymir um púðursnjó í Japan

Hvar í heiminum eru bestu brekkurnar?

„Þetta er mjög persónubundið en mín uppáhaldsskíðasvæði sem ég hef verið á hingað til eru Revelstoke í Kanada og Riksgränsen í Svíþjóð. Heimafjallið mitt heitir Kläppen í Svíþjóð og er mjög gott fjölskylduskíðasvæði með frábærri snjóbrettaaðstöðu.“

Er einhver staður sem þig dreymir um að brettast á?

„Púðursnjór í Japan er hátt á listanum. Svo langar mig líka að kynna mér og uppgötva fleiri svæði hérna heima á Íslandi.“

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá Ylfu í snjóbrettamynd sem hún tók þátt í í ár. 

mbl.is