Helgi Jean og Sölvi skelltu sér til Tenerife

Helgi Jean Claessen nýtur nú lífsins á Tenerife.
Helgi Jean Claessen nýtur nú lífsins á Tenerife. Ljósmynd/Aðsend

Fjölmiðlamennirnir Helgi Jean Claessen og Sölvi Tryggvason eru staddir á Tenerife um þessar mundir. Helgi segir í samtali við mbl.is að hann hafi lofað sjálfum sér að hann myndi fara til útlanda þegar framkvæmdum lyki við húsið og hann stóð við loforðið. 

Helgi og Sölvi fóru út hinn 4. janúar og segir Helgi að ferðalagið hafi verið dásamlegt því mun færri en vanalega voru á ferli vegna kórónuveirunnar. Hann ætlar að eyða janúarmánuði á Tenerife.

„Ég fer reglulega út til að stytta veturinn  og hafði ekki farið mjög lengi út af framkvæmdum við húsið mitt. Ég var búinn að lofa mér að fara þegar þeim yrði lokið  og ég svík að sjálfsögðu ekki sjálfan mig. Ég verð svo sár ef ég geri það. Þannig að þetta var tíminn,“ segir Helgi. 

Helgi stóð í framkvæmdum á húsinu sínu allt 2020 en hann festi kaup á sinni fyrstu fasteign í lok árs 2019.

„Það er geggjað að vera á Tenerife. Eyjan er heita tvíburasystir Íslands. Landslagið er mjög svipað, sami tími, nema hér skín sólin allt árið um kring. Það er grímuskylda hérna, en maður finnur mjög lítið fyrir því,“ segir Helgi.

Helgi er ekki bara mættur á eyjuna fögru í suðri til þess að njóta en hann ætlar einnig að taka að sér rafrænar skemmtanir fyrir hópa og fyrirtæki á meðan. Auk þess heldur hann úti hlaðvarpsþáttunum Hæ hæ  Ævintýri Helga og Hjálmars með Hjálmari Erni Jóhannssyni. Þeir sem vilja fylgjast með ævintýrum Helga á Tenerife gera fylgst með honum á instagramsíðu hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert