Hlaupið á verkefnalista margra

Laugavegurinn er vinsæl gönguleið en margir hlauparar vilja reyna að …
Laugavegurinn er vinsæl gönguleið en margir hlauparar vilja reyna að hlupa hann. mbl.is/RAX

Það seldist upp í Laugavegshlaupið í sumar á mettíma í dag. Þetta er í 25. skipti sem hlaupið fer fram og áhuginn eykst bara með hverju árinu. Silja Úlfarsdóttir kynningarfulltrúi hjá ÍBR, sem skipuleggur hlaupið, segir að svakalegur fjöldi hafi reynt að skrá sig í ár. „Það voru alveg helmingi fleiri en hefðu komist að að reyna skrá sig á sama tíma,“ segir Silja í samtali við ferðavef mbl.is og bendir á að vinsældir hlaupsins hafi stigmagnast síðustu ár.

„Það má fagna því að svona margir eru farnir að hlaupa úti. Ég veit ekki hvort að Covid hafi ýtt undir það en það opnaði skráning núna í hádeginu og það seldist upp á hálftíma. Það er áhugavert að árið 2018 seldist upp á þremur vikum, 2019 á þremur dögum, í fyrra á þremur tímum og nú á 30 mínútum,” segir Silja.

Áhuginn á hlaupinu hefur farið stigvaxandi síðustu ár og er greinilega ekki bara afleiðing þess að fólk hreyfir sig meira utandyra en áður.

„Þetta er lífstíll sem er að vakna. Við höfum alltaf fundið mikinn áhuga fyrir Laugavegshlaupinu sem og öðrum hlaupum sem við höldum. En þetta er svona á „To Do“ listanum hjá mörgum,” segir Silja. Silja var lengi fremsti spretthlaupari Íslendinga en hefur enn ekki hlaupið Laugavegshlaupið sem er 55 kílómetrar. Hún á sér þó þann draum að taka þátt.

Það hafa margir gengið Laugaveginn og tekur gangan þá oft fjóra daga. Það eru tímatakmörk í hlaupinu en keppendur þurfa að klára hlaupið á innan við níu klukkutímum og 15 mínútum og ná ákveðnum millitímum. Upplifunin er því töluvert öðruvísi en þegar Laugavegurinn er genginn í góðum félagsskap með því markmiði að njóta náttúrunnar.

„Við höfum stundum þurft að stoppa fólk sem er hreinlega ekki að ná þessum tímatakmörkunum en það sem var svo ánægjulegt til dæmis í fyrra að við þurftum ekki að stoppa neinn af því fólk er bara mikið betur undirbúið,“ segir Silja.

Erlendir þátttakendur hafa verið margir síðustu ár og er áhugi þeirra enn til staðar þrátt fyrir heimsfaraldur. „Það eru útlendingar sem eru skráðir í hlaupið á þessu ári. Það eru náttúrulega allir að reyna að vera bjartsýnir yfir ástandinu en í fyrra til dæmis afskráðu sig margir erlendir keppendur og þeir sem búa erlendis. Þá opnuðum við aftur fyrir skráningu í maí fyrir þau sæti sem voru laus. Núna er enn hálfgerðir óvissutímar þrátt fyrir að þetta bóluefni er komið þannig við vitum ekkert hvernig staðan verður eða hvort við munum fá tækifæri til að opna aftur, það verður bara koma í ljós síðar,” segir Silja en í fyrra hlupu 550 manns.

Laugavegshlaupið er vinsælt meðal hlaupagarpa.
Laugavegshlaupið er vinsælt meðal hlaupagarpa. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
mbl.is