Diljá fór á hjóli frá Kanada til Mexíkó

Diljá Rudolfsdóttir hjólaði frá Kanada til Mexíkó.
Diljá Rudolfsdóttir hjólaði frá Kanada til Mexíkó. Ljósmynd/Aðsend

Diljá Rudolfsdóttir, forstöðumaður snjallvæðingar og stafrænnar þróunar hjá Veitum, fór í ævintýraferð á hjóli þegar hún hjólaði alla leið frá Kanada til Mexíkó. Diljá sem bjó í Skotlandi í 11 ár þar sem hún menntaði sig meðal annars í gervigreind hlakkar til að hjóla meira um Ísland á nýju ári. 

„Ég slysaðist eiginlega út í hjólreiðar, var mikið að hlaupa þegar ég var í háskóla en fannst það aldrei neitt svakalega gaman og ákvað svo eitt árið að prófa þríþraut og komst þá að því að mér fannst hjólið bara langskemmtilegasti hlutinn, og síðan þá hef ég varla hlaupið, núna snýst allt um hjólið. Ég ákvað reyndar snemma að hjólreiðar ættu alltaf að vera skemmtilegar fyrir mig, og að ég mætti aldrei pína mig út að hjóla - sem ég held að hafi orðið til þess að ég missti aldrei gleðina í þessu og finnst ennþá hjólreiðar vera eitt það skemmtilegasta sem ég geri,“ segir Diljá spurð hvernig hjólreiðaáhuginn kviknaði.

Diljá lagði af stað frá Vancouver í Kanada í hjólareisunni miklu. Þaðan hjólaði hún niður vesturströnd Bandaríkjanna og endaði í Tijuana í Mexíkó. Hún fór samtals 3.100 kílómetra á hjólinu. 

„Þetta tók 42 daga, með nokkrum hvíldardögum inni á milli, og ég hjólaði venjulega á milli 70 til 90 kílómetra á hverjum degi - stysti dagurinn minn var um 25 kílómetrar og sá lengsti var um 140 kílómetrar, svo það gat verið talsverður munur á milli daga,“ segir Diljá. 

Saltery Bay í Bresku-Kólumbíu í Kanada. Díiljá hóf ferðina í …
Saltery Bay í Bresku-Kólumbíu í Kanada. Díiljá hóf ferðina í Kanada. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig undirbjóst þú þig undir ferðina? Hjólar maður bara af stað eða þarf maður að skipuleggja sig vel og æfa vel?

„Tja, svona bæði og. Ég er mikil Excel-manneskja og var búin að setja allar dagleiðirnar og gististaði upp í skjal, sem og allan búnað og kostnað, og sá undirbúningur var einn og sér í rauninni mjög skemmtilegur. Ég var líka búin að æfa mig að tjalda úti í garði enda hafði ég aldrei tjaldað ein áður á ævinni, svo ég hugsaði að það væri kannski gott að vera búin að æfa sig í því fyrirfram! Hins vegar æfði ég mig ekkert í því að hjóla með allan búnaðinn á hjólinu, ég hélt bara að það að ég væri í ágætis hjólaformi myndi duga. Svo kom á daginn að það er talsverður munur á því að hjóla á níu kílóa götuhjóli og að hjóla á stálhjóli með töskur, tjald, mat og vatn sem vó saman hátt í 40 kíló. Mjög augljóst núna, en ég ætlaði bara að taka þetta á „þetta reddast“ hugarfarinu og leið mikið fyrir það þarna fyrstu tvær vikurnar – fæturna hríðskulfu eftir hverja brekku og ég fór ótrúlega hægt yfir. En svo reddaðist þetta auðvitað eins og allt annað!“

Hjólið var nokkuð þyngra en venjulegt hjól enda mikill farangur …
Hjólið var nokkuð þyngra en venjulegt hjól enda mikill farangur á því. Ljósmynd/Aðsend

Diljá fór ein í hjólaferðina og segir það hafa verið auðveldara en hún hélt. 

„Ég er mjög félagslynd og var búin að undirbúa mig mikið andlega fyrir það að ég yrði örugglega oft einmana, og myndi líða illa með að geta ekki deilt upplifuninni með einhverjum öðrum. En í rauninni þá leið mér flesta daga bara virkilega vel; naut þess að vera úti í náttúrunni, og nýtti bara hvert tækifæri til að tala við fólk sem ég hitti á förnum vegi svo ég fengi nú útrás fyrir „extrovertinn“ í mér. Það var stundum erfitt að vera á yndislega fallegum stöðum og sjá alla aðra með vinum sínum og fjölskyldu, og mér fannst ég oft mjög ósýnileg öðrum, en það eru kostir við það líka. Svo hjálpuðu samfélagsmiðlar líka mikið, því að þó þeir hafa sína kosti og galla þá eru þeir einstakt tól til að deila upplifunum með vinum og fjölskyldu og að finnast maður ekki vera alveg einn í heiminum.“

Tjald Diljáar á San Juan-eyju í Washingtonríki.
Tjald Diljáar á San Juan-eyju í Washingtonríki. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða staðir stóðu upp úr?

„Ég á mér marga uppáhaldsstaði úr þessari ferð, en ég held að Big Sur í Kaliforníu hafi verið fallegasta leiðin, sem og strandleiðin í norður Oregon - ég bara gapti yfir fegurðinni á þessum leiðum og var endalaust að stoppa og taka myndir. Ég hugsa líka mjög hlýlega til þjóðgarðs í Washington sem heitir Cape Disappointment, það var ótrúlega fallegur staður og ég man hvað mér leið vel að tjalda þar alveg við sjóinn.“

Farangurinn var Diljá með í hliðartöskum á hjólinu og tjaldið festi hún beint á hjólið. Hún gisti mestmegnis í tjaldi en síðustu vikurnar þegar hún var komin í návígi við stórborgir eins og Los Angeles og San Diego fannst henni öruggara að gista á mótelum sem hún bókaði þá samdægurs. 

„Ég eldaði alltaf kvöldmat og morgunmat á tjaldsvæðinu, og það var allt mjög einfalt eins og hafragrautur og pasta með einhverju próteini og fullt af kaffi. Þegar ég var komin af stað hins vegar þá stoppaði ég oft á dag á allskonar litlum veitingastöðum og kaffihúsum, enda var ég sísvöng. Ég var svona eins og hobbitarnir í Hringadróttinssögu, það var morgunmatur og svo var annar morgunmatur og eftir það var morgunsnarl – svo kom hádegismaturinn!“

Manzanita í Oregonríki.
Manzanita í Oregonríki. Ljósmynd/Aðsend

Lentir þú í einhverjum hindrunum á leiðinni?

„Í rauninni gekk þetta alveg ótrúlega vel, en auðvitað gerist alltaf eitthvað. Ég lenti einu sinni í því að það var hringt á lögreglu því að það var maður sem vildi endilega fá að sofa inni í tjaldinu hjá mér og neitaði að fara, sem var mjög óþægilegt, en lögreglumaðurinn sem mætti var virkilega hress og mikill áhugamaður um Ísland svo við enduðum á að eiga langt og gott spjall. Ég lenti líka stundum í því að reyna að finna nýjar leiðir út af mikilli umferð á vegunum, og endaði þá oftar en einu sinni á illa förnum fjallavegum þar sem skilti vöruðu við björnum og fjallaljónum, svo mér stóð ekki alltaf á sama. En það var mjög skemmtilegt eftir á!“

Diljá segir að ferðalagið haf kennt henni mikið um sjálfstæði og hvernig það er að ferðast ein á báti.

„Í byrjun ferðar fannst mér alltaf smá óþægilegt að biðja ókunnuga um hjálp eða leiðbeiningar, en ég lærði fljótt að það sparaði mér mikinn tíma og að fólk var alltaf boðið og búið að hjálpa mér. Ég lærði líka að þegar maður ferðast einn þá er enginn til að pirrast út í nema maður sjálfur, og það hjálpar ekkert, svo ég varð fljótt alveg óþolandi jákvæð og umburðarlynd.“

Ertu búin að plana fleiri stór ferðalög? 

„Ég verð að sjá aðeins hvernig árið þróast, en mig langar að hjóla meira innanlands - sveitin mín er norður í Öxarfirði og mig langar svolítið að hjóla þangað frá Reykjavík í sumar. Ég var líka með ferð bókaða síðasta sumar að hjóla Bosníu og Svartfjallaland, sem varð náttúrulega ekki, svo kannski ég reyni að endurskipuleggja það fyrir 2021.“

mbl.is