Slíðra sverðin og heimsækja Harry og Meghan

Katrín og Vilhjálmur eru sögð ætla heimsækja Meghan og Harry …
Katrín og Vilhjálmur eru sögð ætla heimsækja Meghan og Harry til Bandaríkjanna. AFP

Fjarlægðin virðist hafa gert bræðrunum Harry og Vilhjálmi gott. Prinsarnir eru sagðir vera að sættast eftir nokkur erfið ár. Þeir eru sagðir ætla að vinna í sambandi sínu á árinu 2021 og stefna þau Vilhjálmur og Katrín á að heimsækja Harry og Meghan í Bandaríkjunum. 

„Þetta hefur verið rússíbani fyrir alla hlutaðeigandi, sérstaklega bræðurna, sem hafa sett sér það markmið að láta ekki allt fara til fjandans í framtíðinni og hafa lært mikið af þessari erfiðu reynslu,“ sagði heimildarmaður Us Weekly um ósætti bræðranna og brotthvarf Harrys og Meghan úr bresku konungsfjölskyldunni.

Heimildarmaðurinn segir bræðurna hlakka til að verja tíma saman á nýju ár þegar það verður öruggt að ferðast á ný. Heimildarmaðurinn tekur fram að bræðurnir muni að öllum líkindum hittast á Englandi. „En einhvern tímann á árinu 2021 munu hertogahjónin af Cambridge ferðast til Santa Barbara og hitta hertogahjónin af Sussex á nýju heimili þeirra,“ sagði heimildarmaðurinn. 

mbl.is