Fáfarnar en stórbrotnar borgir til að heimsækja 2021

Cork á Írlandi er vinaleg borg.
Cork á Írlandi er vinaleg borg. Ljósmynd/Instagram

Höfuðborgir landa eiga það til að vera mesta aðdráttaraflið á ferðalögum. Þegar við getum aftur farið að ferðast í skugga heimsfaraldursins eru fjölfarnir ferðamannastaðir ekki jafn ákjósanlegur kostur og áður. 

Ferðavefurinn tók saman nokkra bæi og borgir í Evrópulöndum sem eru stórbrotnar og skemmtilegar þrátt fyrir að vera ekki höfuðborgir.

Jerez de la Frontera á Spáni

Jerez er í Andalúsíu á Spáni og er hinn viðkunnanlegasti bær. Hann er í einstaklega skemmtilegum stíl með fallegum götum og kirkjum. 

Rijeka í Króatíu

Borgin Rijeka í Króatíu er spennandi áfangastaður fyrir þá sem vilja sjá sólina en líka skoða menningu. Borgin fékk útnefninguna menningarhöfuðborg Evrópu í apríl 2020 og mun halda þeim titli fram í apríl. 

Wroclaw í Póllandi

Þeir sem hafa áhuga á sögu seinni heimsstyrjaldarinnar ættu ekki að láta Wroclaw í Póllandi fram hjá sér fara. Borgin var að mestu eyðilögð í stríðinu en hefur verið endurbyggð. Steven Spielberg notaði hana í upptökum á kvikmyndinni Bridge of Spies. 

Séte í Frakklandi

Hafnarbærinn Séte í Frakklandi iðar af lífi. Ef þig langar að dýfa tánum í Miðjarðarhafið, njóta framúrskarandi víns og smakka á brakandi fersku sjávarfangi um leið er Séte staðurinn fyrir þig. 

Lahti í Finnlandi

Ef þig langar að upplifa eitthvað nýtt er borgin Lahti tilvalin. Borgin var útnefnd græn höfuðborg Evrópu árið 2021. Borgin er í Suður-Finnlandi, í um klukkustundar akstursfjarlægð frá Helsinki. Þú getur blandað heilsuferð saman við borgarferð í Lahti því stutt er í náttúruna frá borginni.

Cork á Írlandi

Cork er næststærsta borg Írlands en er þrátt fyrir það alveg ofboðslega krúttleg á köflum. Þar er að finna heila gommu af söfnuum og menningu. Hún á sér ríka sögu en hún þjónaði mikilvægu hlutverki sem hafnarborg.

Düsseldorf í Þýskalandi

Heimsókn til Düsseldorf er hin fullkomna borgarferð. Götur borgarinnar eru einstaklega smekklegar og fágaðar og þar er að finna gríðarlega fallegar byggingar. Gamli hluti borgarinnar er vel varðveittur og sumstaðar er það eins og að stíga aftur í tímann. Bjórinn er líka ansi ódýr í borginni, ódýrari en vatn í mörgum tilvikum, svo það skemmir ekki fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert