Missti vinnuna og gengur nú þvert yfir Bandaríkin

Hannah Bacon ætlar að ganga frá Los Angeles til Virgina …
Hannah Bacon ætlar að ganga frá Los Angeles til Virgina Beach. Ljósmynd/Hannah Bacon

Hin 27 ára gamla Hannah Bacon missti vinnuna í heimsfaraldrinum í vor. Í kjölfarið ákvað hún að leggja sitt af mörkum við að vekja athygli á loftslagsbreytingum. Hinn 1. nóvember lagði hún upp í göngu þvert yfir Bandaríkin, frá Kaliforníu til Virginíustrandar í austri. Á leiðinni vonast hún til að safna peningum fyrir góðgerðarsamtökin Sunrise Movement

Í viðtali við WTKR sagði Bacon að eftir að hún missti vinnuna hefði hún lestið bókina The Uninhabitable Earth eftir David Wallace-Wells. „Ég var að hugsa um næstu kynslóðir og heiminn sem við búum í og skiljum eftir fyrir unga fólkið okkar,“ sagði Bacon. Hún sagðist hafa orðið mjög hrædd og fundið að hún yrði að leggja sitt af mörkum. 

Bacon lagði upp með að safna 20 þúsund bandaríkjadölum en þegar þetta er skrifað hefur hún safnað 12.400 dölum. 

Hún lagði af stað í langför sína 1. nóvember síðastliðinn og í sinni nýjustu uppfærslu á Instagram hafði hún gengið 1.046 kílómetra á 46 dögum. Hún gerir ráð fyrir að gangan taki hana um sjö mánuði.

Bacon lagði af stað frá ströndinni við Los Angeles-borg og þaðan ætlar hún að ganga til strandarinnar í Virginíuríki. Þar á milli eru rúmlega 4.460 kílómetrar sé gengið eftir þjóðvegi 66. Hún hefur ákveðið að halda nákvæmri gönguleið sinni leyndri til öryggis en leiðin sem hún fer að öllum líkindum er álíka löng og ef hún gengi eftir þjóðvegi 66.

Skjáskot/Google Maps
mbl.is