Hefndarferðalög eru dýrari, flottari og betri

Ætlar þú í hefndarferðalag árið 2021?
Ætlar þú í hefndarferðalag árið 2021? Ljósmynd/Colourbox.dk

Hugtakið hefndarferðalag heyrist æ oftar nú þegar nýtt ár er gengið í garð og jákvæðar fréttir af dreifingu bóluefnis berast. Svo gæti farið að hefndarferðalag yrði eitt af orðum ársins í ferðabransanum árið 2021. Margir ferðuðust lítið sem ekkert í fyrra og því komið að því að hefna rækilega fyrir það. 

Í hefndarferðalagi skal ekki bara fara í sömu ferðina og frestað var í fyrra. Nei, ferðalagið sem farið verður í í staðinn verður betra, flottara og dýrara. 

„Í stuttu máli eru hefndarferðalög það að fara í aukaferðir eða eyða meira en þú myndir venjulega gera, bara vegna þess að þið hafið verið svipt ferðalögum svo lengi!“ Svona skilgreindi ferðasíðan Qtrip fyrirbærið síðasta sumar.

Sálfræðingur á eftirlaunum sagði í viðtali við bandarísku fréttasíðuna Boston Globe í desember að fólk sem hefði áður sætt sig við strandarfrí í Karíbahafinu væri kannski að hugsa meira um ferðalag til Íslands núna. Eitthvað út fyrir rammann. 

Ferðaþjónustuaðilar erlendis eru nú þegar byrjaðir að nýta sér hugtakið til þess að selja meira. Lúxushótelið Four Seasons í Orlando auglýsir til dæmis lúxusdvöl á hótelinu fyrir ferðaþyrstar fjölskyldur sem hefndarferðalag.

Fólk gæti leyft sér meira þegar það skreppur í frí …
Fólk gæti leyft sér meira þegar það skreppur í frí árið 2021. AFP
mbl.is