Champs-Elysées verður að almenningsgarði

Champs-Elysees mun fá græna andlitslyfingu á næstu árum.
Champs-Elysees mun fá græna andlitslyfingu á næstu árum. AFP

Hin vinsæla verslunargata í París, Champs-Elysées, mun á næstu árum fá græna andlitslyftingu og verður götunni breytt í almenningsgarð. 

Frakkar kalla götuna oft fallegasta stræti í heimi en hún mun nú fá ferskara yfirbragð þar sem fólk verður sett í forgrunn. Barist hefur verið fyrir því lengi að gera götuna grænni og hafa Parísarbúar kvartað undan því að bílaumferð og verslunarkeðjur hafi breytt götunni í háværa leiðindagötu sem þeir hafi engan áhuga á að heimsækja.

Græna andlitslyftingin fer fram í skrefum. Fyrst mun hið umferðarteppta torg Place de la Concorde verða að garði og er gert ráð fyrir að framkvæmdum ljúki áður en Ólympíuleikarnir í París fara fram árið 2024. 

„Þetta verður stórkostlegur garður,“ sagði borgarstjórinn, Anna Hidalho, í viðtali við Journal du Dimanche á dögunum. 

Skipulag Champs-Elysées helst í hendur við framtíðarstefnu borgarstjórans í skipulagsmálum þar sem stefnt er að því að skapa fleiri græn svæði í hinni þéttbygðu Parísarborg, þar sem fólk geti notið sín á torgum umvafið gróðri en ekki háværum bílum og mengun. 

Hidalgo hefur beitt sér fyrir því að minnka umferð í borginni og meðal annars látið loka tveimur umferðaræðum sem lágu meðfram Signu. Hún hefur einnig byggt samgönguinnviði fyrir hjól og hlaupahjól. 

Árið 2019 var bandaríski landslagsariktektinn Kathryn Gustafson skipuð yfir starfshóp sem hefur unnið að því að breyta svæðinu í kringum Eiffelturninn þar sem götum verður breytt í garða og tré gróðursett.

mbl.is