Vín eina borgin sem kom til greina

Marta Kristín Friðriksdóttir býr í Vín.
Marta Kristín Friðriksdóttir býr í Vín. Ljósmynd/Aðsend

Vín er eina borgin sem kom til greina þegar Marta Kristín Friðriksdóttir sópransöngkona fór utan í nám. Eftir að hafa lokið námi við Söngskólann í Reykjavík hóf hún nám við Tónlistarháskólann í Vinarborg haustið 2017 og var algjörlega heilluð af menningunni, byggingunum og sögunni. 

„Það er einstaklega góður andi í borginni, rólegt andrúmsloft, gott veðurfar, fallegir garðar og glæsilegar byggingar úti um allt,“ segir Marta þegar hún er spurð hvað sé það besta við borgina. 

Áttu þér uppáhaldsveitingastað?

„Uppáhalds fíni veitingastaðurinn minn í Vín er klárlega The Bank Brassiere & Bar. Hann er í gömlu húsnæði í miðbænum sem, eins og nafnið gefur til kynna, var áður banki en er nú búið að breyta í gullfallegan veitingastað. En dagsdaglega myndi ég segja að uppáhaldsveitingastaðurinn minn væri Disco Volante – bestu pítsur sem ég hef smakkað í Vín!“

Hvernig er skemmtanalífið í Vín?

„Það er alveg geggjað. Góðir barir og skemmtistaðir um alla borgina. Svo er líka ein stærsta „Open-air“-tónlistarhátíð í heimi, Donauinselfest, haldin í Vín á hverju ári. Ég held mig fjarri dýrum kokteilbörum í miðbænum og held að uppáhaldsbarinn minn sé litli subbulegi kjallarakarókíbarinn Sing your song.“

Við Hofburg-höllina.
Við Hofburg-höllina. Ljósmynd/Aðsend

Hvað er ómissandi að sjá?

„Það er úr svo mörgu að velja! Það er klárlega miðbærinn! Hann er engu líkur, ótrúlega margar fallegar og gamlar byggingar, stútfullar af sögu. Til dæmis óperuhúsið, Hofburg-höllin, tónleikahúsin Wiener Konzerthaus og Wiener Musikverein, Stefánskirkjan (Stephansdom) og Ráðhúsið.

Það er líka yndislegt að rölta stefnulaust um miðbæinn og virða fyrir sér byggingarnar, þröngar göngugötur, gosbrunna og styttur sem virðast vera á hverju einasta horni. Það er eiginlega ótrúlegt hvað það er mikil list í þessari borg! Ef tími gefst fyrir eitt safn mæli ég með Albertina-safninu í miðbænum, þar er oft mjög skemmtileg blanda af nýju og gömlu. Það eru einnig nokkrar fallegar hallir í Vín sem er mjög gaman að skoða og ég verð að segja að mín uppáhaldshöll sé Schönbrunn-höllin. Hún er örlítið fyrir utan miðbæinn en það er algerlega ómissandi að fara í skoðunarferð þangað.

Á jólamarkaði við Ráðhúsið.
Á jólamarkaði við Ráðhúsið. Ljósmynd/Aðsend

Eitt það allra nauðsynlegasta að gera í Vín er að fá sér sæti á alvöru Vínarkaffihúsi. Ég mæli sérstaklega með kaffihúsunum Alt Wien, Frauenhuber og Hawelka. Mig langar líka að minnast á Kahlenberg sem er fjall í útjaðri Vínar þar sem hægt er að njóta útsýnisins, rölta svo niður Weinwanderweg og stoppa á fjölmörgum vínekrum og smakka vín (í Vín), alveg yndislegt ef maður á lausan dag yfir sumartímann.

Annað sem er gaman að skoða er manngerð eyja úti í miðri Dóná, Donauinsel, eitt aðalútivistarsvæði Vínarbúa. 21 kílómetra löng eyja þar sem hægt er að hjóla, hlaupa, synda, róa, fara í göngutúr í náttúrunni eða jafnvel leigja litla báta og sigla á sumrin. Alvöru Käsekrainer (þykk austurrísk pylsa með ostabitum) er líka ómissandi upplifun í Vín.“

Við alte-Dóná ánna á sólríkum sumardegi.
Við alte-Dóná ánna á sólríkum sumardegi. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er draumadagurinn þinn í Vín?

„Draumadagurinn minn krefst þess að það sé sumar og sól. Hann hefst á því að sofa aðeins út og fá svo heimagerðan dögurð og kaffi. Síðan myndi ég hjóla að Dóná og finna mér notalegan stað með vinum mínum, setjast í grasið, lesa góða bók, hlusta á tónlist, borða snakk og njóta veðursins. Þegar fer að kvölda er stefnan tekin á einhvern góðan veitingastað þar sem við borðum góðan mat og njótum lífsins og hver veit nema kvöldið endi á karókíbarnum mínum.“

Eru einhverjar túristagildrur sem ber að varast?

„Ekki kaupa vatn! Kranavatnið í Vín er næstum jafngott og á Íslandi, þannig að muna að taka með sér flösku í göngutúrinn og fylla hana. Á veitingastöðum má líka alltaf biðja um kranavatn (Leitungswasser) og spara þannig plast og peninga. Mér finnst líka frekar ofmetið að fá sér hina víðfrægu kökusneið „Sachertorte“ á Hotel Sacher og oftar en ekki er mjög löng röð þar inn. Einnig eru oft menn með Mozart-hárkollu á vappi um miðbæinn að selja miða á tónleika sem eru ekki alveg í hæsta gæðaflokki.“

Í Dóná-turninum er hægt að ganga hringinn uppi í turninum …
Í Dóná-turninum er hægt að ganga hringinn uppi í turninum og horfa yfir alla borgina eða jafnvel borða á veitingastað sem snýst. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert