Heyra bakpokaferðalög sögunni til eftir faraldur?

Bakpokaferðalög eru sívinsæl.
Bakpokaferðalög eru sívinsæl. Ljósmynd/Pexels/Te lensFix

Kórónuveiruheimsfaraldurinn hefur haft gríðarleg áhrif á ferðalög eins og við þekkjum þau. Bakpokaferðalög um heiminn hafa verið gríðarlega vinsæl á síðastliðnum áratugum en nú er spurning hvort þessi ferðalög muni heyra sögunni til eftir faraldurinn.

Bakpokaferðalög hafa verið vinsæl í næstum því 70 ár, enda heillandi og ódýr leið til að kanna heiminn. Í grein á CNN Travel er þeirri spurningu velt upp hvort bakpokaferðalög eigi sér einhverja framtíð í breyttum heimi. 

„Bakpokaferðalög eru tímalaust hugtak. Það er mjög auðvelt og aðgengilegt að fara í bakpokaferðalag. Ég er búin að vera á slíku ferðalagi í 20 ár og tilfinningin fyrir tengslum tekur engan enda sama hversu gamall ég verð,“ segir Kash Bhattacharya, stofnandi BudgetTraveller.

Eitt af því sem heillar fólk mest við bakpokaferðalög er hversu ódýr þau geta verið. Ferðalangar gista á hostelum fyrir lágar upphæðir og eiga auðvelt með að bóka ódýrt flug með lággjaldaflugfélögum. 

Mörg flugfélög um allan heim hafa verið rekin með tapi í tæpt ár og sér ekki enn fyrir endann á taprekstri þeirra. Það er því ekki ólíklegt að í nokkurn tíma verði ódýrt flug af skornum skammti.

Bólusetning fyrir kórónuveirunni er hafin í mörgum löndum en fleiri áfangastaðir en áður gera kröfu um að sýna fram á neikvætt veirupróf við komu til landsins. Slíkar kröfur geta aukið kostnað ferðalangs til muna, sérstaklega ef stefnt er að því að fara til margra landa. 

Óvinsælir viðskiptavinir sem skila þó miklu í kassann

Þótt bakpokaferðalag í sjálfu sér sé ódýrt fyrir ferðalangana sjálfa skila þeir miklum tekjum í kassann, sérstaklega á áfangastöðum þar sem hátt hlutfall er bakpokaferðalangar. 

Samkvæmt WYSE Travel Confederation fara um 45 milljónir manna í bakpokaferðalag á hverju ári. Suðaustur-Asía er einn vinælasti áfangastaðurinn og þá sérstaklega Taíland. 

Bakpokaferðalangar hafa í gegnum árin fengið óorð á sig og tengja margir saman bakpokaferðalanga og slæma umgengni. 

„Bakpokaferðalangar hafa í gegnum árin verið þekktir fyrir að fara ótroðnar slóðir, kaupa vörur af heimamönnum og eiga í samskiptum við þá, en það hefur breyst. Í dag telja margir þá geta skemmt umhverfið, samfélagið og menninguna með miklu djammi og slæmri hegðun,“ sagði Denis Tolkach, aðstoðarprófessor við School of Hotel and Tourism Management við Hong Kong Polytechnic-háskólann. 

Spár gera ráð fyrir að áfangastaðir muni ekki byrja strax á að markaðssetja sig fyrir bakpokaferðalanga heldur frekar reyna að laða efnameiri ferðamenn að sem muni eyða meiri peningum.

Það er þó ekki útséð um að bakpokaferðalög heyri sögunni til og spá margir að þótt þau breytist kannski rétt eftir heimsfaraldurinn muni þessi grein innan ferðamennskunnar jafna sig. 

Fjölfarnir áfangastaðir eins og Balí í Indónesíu hafa fengið frí frá ferðamönnum frá því í mars á síðasta ári. Þá hefur gefist tækifæri til að bæta innviði eyjunnar sem svo margir ferðamenn heimsækja á hverju ári. Svo þó að bakpokaferðalög muni breytast eftir heimsfaraldur þá eru vinsælir áfangastaðir betur í stakk búnir til að taka við ferðalöngum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert