Meinaður aðgangur vegna klæðaburðar

Catherine Bampton var meinaður aðgangur vegna klæðaburðar.
Catherine Bampton var meinaður aðgangur vegna klæðaburðar. Skjáskot/Instagram

Hinni 23 ára gömlu Catherine Bampton var í síðustu viku meinaður aðgangur að vél Virgin Australia þar sem flugþjónn gerði athugasemd við klæðaburð hennar. Bampton var klædd hlýrabol með engu baki og sagði flugþjónninn að flugstjórinn væri ekki hrifinn af því að fólk sýndi of mikið hold. 

„Hún sagði við mig, fyrir framan alla, að flugstjórinn vildi ekki hleypa mér um borð út af fötunum sem ég var í. Ég var í svo miklu sjokki og svo ringluð því fötin mín huldu mig ágætlega,“ sagði Bampton í viðtali við News.com.au

Flugþjónninn spurði hana hvort hún væri ekki með eitthvað til að fara í utan yfir bolinn sem hún gerði svo. Þá fékk hún að fara um borð. Eftir að hún var komin í sætið sitt spurði hún flugþjóninn hvað hefði nákvæmlega verið að klæðaburði hennar, þá sagði hún að flugstjórinn vildi ekki að fólk sýndi hold. 

Bampton segist þá hafa spurt hvort handleggir og bök fólks mættu ekki sjást og þá varð flugþjónninn hvumsa.

Hún fer nú fram á afsökunarbeiðni frá flugstjóranum og vill að stjórnendur flugfélagsins viti hvað sé í gangi innan fyrirtækisins. 

„Ég vil ekki að annað fólk lendi í þessu því þau ættu ekki að fá að koma svona fram,“ sagði Bampton.

Skjáskot/Instagram
mbl.is