Kvartaði yfir framhjáhaldi eiginkonunnar í hótelumsögn

Hjónin dvöldu á The Palms hótelinu á Turks- og Caicoseyjum.
Hjónin dvöldu á The Palms hótelinu á Turks- og Caicoseyjum. Skjáskot/Instagram

Karlmaður gaf hóteli eina stjörnu í umsögn sinni á Tripadvisor á dögunum. Það sem vekur þó meiri athygli er að í umsögn sinni kvartaði hann yfir því að eiginkona hans hefði haldið framhjá honum með nuddara á hótelinu.

Maðurinn, sem kom fram undir nafninu Michael á Tripadvisor, hafði dvalið á hótelinu The Palms á Turks- og Caicoseyjum í desember. Hann lýsti hótelinu sem fallegu og friðsömu með góðri þjónustu. 

Fyrst voru þau hjónin bara tvö en síðar flaug hann heim til að sækja son sinn og koma aftur með hann á hótelið. „Þegar ég kom aftur var allt frekar vandræðalegt. Eiginkona mín sagði mér að lokum að hún hefði farið í nudd á meðan ég sótti son okkar og nuddarinn dregið hana á tálar og hún eytt nótt með honum,“ skrifaði Michael. 

Hann sagði samt sem áður að hann kenndi eiginkonu sinni um framhjáhaldið, ekki hótelinu, en vildi vara aðra ferðalanga við. „Ég kenni ekki hótelinu um þetta, þetta var konunni minni að kenna. En ég vildi bara láta ykkur vita að svona hlutir geta gerst á þessu hóteli.“

Michael hefur síðan eytt umsögn sinni en skjáskot náðist af færslu hans.

Skjáskot/Tripadvisor
mbl.is