Biden-hjónin gistu í sögulegu húsi síðustu nóttina

Forsetahjón Bandaríkjanna Joe og Jill Biden.
Forsetahjón Bandaríkjanna Joe og Jill Biden. AFP

Joe og Jill Biden gistu í sögulegu húsi rétt hjá Hvíta húsinu nóttina áður en Joe Biden tók við embætti forseta Bandaríkjanna. Húsið kallast Blair House og hefur verið gestahús forseta Bandaríkjanna síðan árið 1942. Hefð fyrir því að verðandi forseti dvelji í húsinu síðustu nóttina fyrir innsetningarathöfnina. 

Húsinu hefur verið lýst sem besta hóteli í heimi fyrir þá útvöldu. Húsið telst þó ekki til hótels þar sem það er lokað almenningi. Háttsettustu embættismenn í heimi gista í húsinu í boði Bandaríkjaforseta. Íslenskir forsetar hafa meðal annars gist þar. Aðrir þekktir gestir hafa verið Elísabet Bretadrottning og Charles de Gaulle Frakklandsforseti. 

Gestahúsið er samansett úr fjórum húsum frá 19. öld að því er fram kemur á vef Washington Post og lítur út eins og stórt fjölskylduhús. Í húsinu eru yfir 120 herbergi með gömlum húsgögnum, málverkum, postulíni og silfri. Í rauninni býr það yfir öllum þeim kostum sem fimm stjörnu hótel mega prýða.

Hér sést Blair House í janúar.
Hér sést Blair House í janúar. AFP
mbl.is