Flugfélag býður upp á heimsent vín

American Airlines býður upp á vín í heimsendingu.
American Airlines býður upp á vín í heimsendingu. AFP

Bandaríska flugfélagið American Airlines hefur ekki lagt árar í bát í heimsfaraldrinum. Á meðan flugfélagið getur ekki flogið um allan heim hefur það tekið upp á að bjóða upp á heimsendingu á víni sem almennt er í boði um borð. 

Hin nýja þjónusta kallast Flagship Cellars at-home og býður viðskiptavinum eldri en 21 árs að panta vín heim á 99 bandaríkjadali eða um 13 þúsund krónur. Hægt er að skrá sig í mánaðarlega áskrift en flugfélagið tekur þó fram að þetta verði bara í boði á meðan heimsfaraldurinn geisar. 

Vildarvinir American Airlines geta nýtt vildarpunkta sína upp í pantanir. 

Vínið sem er í boði er vanalega á boðstólum fyrir farþega á viðskiptafarrými og fyrsta farrými. Vegna kórónuveirunnar eru mörg flugfélög hætt að bjóða upp á drykki um borð og sitja því uppi með miklar birgðir af víni og öðrum drykkjum.

mbl.is