Bólusettir fá afslátt

Bólusettir fá afslátt á veitingastöðum í Dúbaí.
Bólusettir fá afslátt á veitingastöðum í Dúbaí. KARIM SAHIB

Veitingastaðir í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum bjóða nú afslátt til viðskiptavina sem hafa verið bólusettir fyrir kórónuveirunni. 

Allir viðskiptavinir sem geta sýnt fram á að þeir hafi farið í fyrri bólusetningu fá 10% aslátt og þeir sem hafa farið í báðar bólusetningarnar fá 20% afslátt. 

Afsláttarverkefnið er hluti af verkefninu „Spread love, not Rona“ eða „Dreifum ást, ekki veiru“. 

Sameinuðu arabísku furstadæmin eru að reyna að berjast við veiruna án þess að loka landamærum sínum algjörlega. Í síðustu viku var öllum viðburðum á hótelum og veitingastöðum aflýst vegna aukins fjölda smita. 

Um 2,5 milljónir manns hafa verið bólusettar í landinu en 10 milljónir búa þar. Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa veitt leyfi fyrir kínverska bóluefninu frá Sinopharm og Pfizer BioNTech-bóluefninu. 

Ferðaþjónusta er mikilvægur hluti af efnahagskerfi Dúbaí og eru breskir ferðamenn stór hluti af þeim sem sækja landið heim í venjulegu árferði. Um 1,5 milljónir Breta ferðast til Dúbaí í venjulegu árferði. 

Sem fyrr segir eru landamæri Sameinuðu arabísku furstadæmanna ekki algjörlega lokuð. Ferðamenn þurfa að sýna fram á neikvætt kórónuveirupróf sem var tekið 96 tímum fyrir brottför.

mbl.is