Hannar ofursnekkju með Instagram í huga

Ofursnekkjan verður hönnuð með Instagram í huga.
Ofursnekkjan verður hönnuð með Instagram í huga. Ljósmynd/Bhushan Powar Design Studio

Áhrifavaldurinn Denis Suka er mikill áhugamaður um snekkjur og hefur haldið úti vinsælli instagramsíðu í þrjú ár þar sem hann fjallar um snekkjur. 

Nú hefur Suka ákveðið að nýta hæfileika sína til að taka fallegar myndir af snekkjum og hanna þær. Í samstarfi við Bhusan Powar Design Studio ætlar hann að hanna instagram-vænstu snekkju í heimi. 

Á snekkjunni verður til að mynda „infinity“-sundlaug og loftháir gluggar þar sem hægt er að ná gullfallegum myndum. Þá verður einnig heitur pottur og þyrlupallur á snekkjunni. 

„Margar snekkjur eru ekkert fallegar. Ég hugsaði með mér að ef ég gæti dregið fram það fallega, þá myndi einhver vilja byggja það. Markmið mitt var að finna upp á einhverju nýju. Það eru þúsundir snekkja í iðnaðinum. Ef við gerum eitthvað eins og hinir, þá skiptir það engu máli,“ sagði Suka í viðtali við CNN Travel

Suka hefur eytt síðustu þremur árum í að spekúlera í snekkjum og hann hefur góðan skilning á því sem gerir hönnun einstaka. Hann ákvað að herbergi eigandans yrði í forgrunni í hönnuninni. Hann gerir ráð fyrir að lokahönnun og smíði snekkjunnar muni taka að minnsta kosti þrjú ár en hann hefur lagt mikla vinnu í hönnunina.

Það hefur verið mikil eftirspurn eftir svokölluðum ofursnekkjum síðustu ár. Floti ofursnekkja taldi 3.906 árið 2009 en árið 2019 taldi flotinn 5.646 snekkjur. Salan dróst örlítið saman árið 2020 vegna heimsfaraldursins en 341 snekkja var seld það árið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert