Heimamenn ósáttir við Hemsworth-bræður

Liam og Chris Hemsworth búa við Byron-flóa í Ástralíu.
Liam og Chris Hemsworth búa við Byron-flóa í Ástralíu. Samsett mynd

Heimamenn í Byron-flóa í Ástralíu eru síður en svo sáttir við hversu mikið aðdráttarafl bræðurnir Liam og Chris Hemsworth hafa. Chris er búsettur í bænum og Liam dvelur þar löngum stundum. Áhrifin eru þau að fjöldi stjarna heimsækir flóann reglulega og fasteignaverð hefur hækkað mikið.

Í grein á News.com.au er rætt við nokkra heimamenn sem segjast vera langþreyttir á þeim Hemsworth bræðrum. „Hemsworth og hinar stjörnurnar – ég er búinn að fá nóg af þeim. Allir raunverulegir heimamenn hafa fengið nóg af þeim. Við viljum þá ekki hér,“ sagði Bert Reid sem flutti til Byron-flóa seint á 9. áratugnum og opnaði brimbrettabúð. 

Það er rétt að fjöldi stjarna hefur heimsótt Byron-flóa síðustu ár. Leikarinn Zac Efron flutti til bæjarins á síðasta ári og hefur dvalið þar í heimsfaraldrinum. Þá hafa stjörnur á borð við Michelle Bridges, Sam Burgess, Mark Wahlberg, Natalie Portman, Matt Damon, Olivia Newton-John, Nicole Kidman, Melissa McCarthy, Isla Fisher og Sacha Baron Cohen heimsótt bæinn nýlega. 

Fasteignaverð hefur sömuleiðis hækkað en ekki er þó hægt að beintengja hækkunina við veru Hemsworth-bræðra í bænum. Fasteignaverð hefur hækkað um 40% í heimsfaraldrinum samkvæmt News.com.au. Leiguverð hefur sömuleiðis hækkað þar sem margir hafa ákveðið að leigja íbúðir sínar út í skammtímaleigu á Airbnb. 

Þá hefur fjöldi fólks sem er búsett í stóru borgunum, Melbourne og Sydney, flutt til Byron-flóa síðastliðið árið eða sóst eftir íbúðum til skammtímaleigu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert