Fjórir hnúfubakar í fyrstu hvalaskoðunarferð ársins

Fyrsta hvalaskoðunarferð ársins hjá Norðursiglingu var farin um helgina.
Fyrsta hvalaskoðunarferð ársins hjá Norðursiglingu var farin um helgina. Ljósmynd/Norðursigling

„Þetta var algjörlega frábær ferð í alla staði og virkilega ánægjuleg byrjun á vertíðinni,“ segir Heimir Harðarson, skipstjóri hjá Norðursiglingu, en fyrirtækið fór í fyrstu hvalaskoðunarferð ársins um helgina.

Siglt var úr höfn á Húsavík á eikarbátnum Náttfara og voru 20 manns um borð auk áhafnar. Aðstæður voru einstaklega góðar, milt veður og gott í sjóinn. Eftirvæntingin var mikil meðal áhafnar og farþega þegar Náttfari lagði af stað og óhætt að segja að Skjálfandaflói hafi tekið vel á móti þeim.

Eftir aðeins um 15 mínútna siglingu birtust hvorki meira né minna en fjórir hnúfubakar og áttu farþegarnir, sem sumir hverjir voru komnir langan veg, vart til orð af hrifningu yfir þessari ótrúlegu upplifun.

„Þetta var hvalaskoðun eins og hún gerist best á Skjálfanda og það um miðjan febrúar! Þetta lofar vissulega góðu með framhaldið,“ segir Heimir sem er að hefja sitt 27. starfsár með Norðursiglingu. 

Ferðin um helgina var aðeins forskot á sæluna en áætlunarferðir hjá Norðursiglingu eru ekki enn hafnar. Daglegar hvalaskoðunarferðir hefjast á mánudaginn, 1. mars. 

Fyrsti hnúfubakur ársins á Skjálfanda heilsar.
Fyrsti hnúfubakur ársins á Skjálfanda heilsar. Ljósmynd/Charla Jean Basran
Eftir um 15 mínútna siglingu kom áhöfnin auga á fyrsta …
Eftir um 15 mínútna siglingu kom áhöfnin auga á fyrsta hnúfubakinn. Ljósmynd/Norðursigling
Skipstjórinn Heimir Harðarson siglir inn í sitt 27. starfsár hjá …
Skipstjórinn Heimir Harðarson siglir inn í sitt 27. starfsár hjá Norðursiglingu. Ljósmynd/Norðursigling
Við Húsavíkurhöfn.
Við Húsavíkurhöfn. Ljósmynd/Norðursigling
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert