Úr auglýsingageira í draugagang

Ágúst Guðbjörnsson.
Ágúst Guðbjörnsson. Ljósmynd/Aðsend

Íslendingar voru á ferð og flugi um síðustu helgi. Margir fóru á skíði á Akureyri en það var ekki síður mikil aðsókn að Draugasetrinu á Stokkseyri um helgina að sögn Ágústs Guðbjörnssonar, eins af forsvarsmönnum setursins. Ágúst segir mikinn áhuga á afturgöngum og öðrum kynjaverum. 

„Ég er búinn að starfa í auglýsingageiranum lengi og var beðinn að koma inn og aðstoða í rekstrinum. Þetta er mjög skemmtilegt verkefni. Við erum búin að lyfta setrinu á hærra plan. Gestir koma brosandi út og það er svo ánægjulegt að geta skemmt fólki og kynnt því sögu íslenskra drauga í leiðinni,“ segir Ágúst um hvernig draugagangurinn tók yfir líf hans. 

„Það hefur verið mikið að gera í byrjun árs en við höfum að sjálfsögðu passað fjöldatakmarkanir mjög vel og hleypt inn í hollum. Það var mikið að gera um síðustu helgi og mikil aðsókn. Ísland á sér aðra vídd þegar kemur að draugum, álfum og huldufólki. Safnið er einstakt hér á landi og allt er gert til þess að endurvekja upplifun þeirra sem hafa séð eða komist í nánd við heim hins óútskýrða. Boðið er upp á ótrúlegar sögur með ýmiss konar uppstillingum og brellum sem fá hárin til þess að rísa. Draugasetrið er ekki fyrir viðkvæma," segir Ágúst. 

Ljósmynd/Aðsend

„Gestir fá meðferðis 24 draugasögur sem leiða þá í gegnum safnið. Mikilvægt er að gefa öllum draugum á Draugasetrinu góðan gaum þar sem óvæntir atburðir geta komið fram á hverju sögustigi. Draugasetrið er um 1.000 fermetra völundarhús og þar sem talsvert myrkur er í sumum rýmunum er mikilvægt að hlusta eftir sögunúmerum í byrjun hverrar sögu. Við erum með tvo leikara sem eru inni á setrinu að gera upplifunina enn meira spennandi. Þá eru ný og endurbætt tæki á setrinu, meðal annars reykvélar og fleira til þess að gera upplifunina enn meira spennandi,“ segir hann.

Draugasetrið er opið á laugardögum frá 13 til 17 fram í maí og þar geta gestir myndað sér skoðun á því hvort draugar séu til eða ekki.

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert