Bjóða einkaeyjuna til leigu á eina milljón bandaríkjadala

Nautilus einkaeyjan á Maldíveyjum.
Nautilus einkaeyjan á Maldíveyjum. Skjáskot/Instagram

Þegar ferðalög komast aftur í samt horf eftir heimsfaraldurinn verður eflaust mikil eftirspurn eftir fríum þar sem fólk getur haldið sig út af fyrir sig. Til að svara þeirri eftirspurn hefur Nautilus-lúxuseinkaeyjan á Maldíveyjum sett saman heillandi pakka fyrir þá efnameiri. 

Í boði er að leigja alla eyjuna í heild sinni á eina milljón bandaríkjadala eða um 127 milljónir króna. 26 strendur og strandhús eru á eyjunni. Nóttin kostar 250 þúsund bandaríkjadali en nauðsynlegt er að bóka í það minnsta fjórar nætur svo heildarverðið getur hækkað hratt.

Innifalið með eyjunni eru persónulegur þjónn, jógatímar, heilsuræktartímar, kokteilar við sólarlag og ýmislegt fleira sem eyjan hefur upp á að bjóða. Gestir sem bóka eyjuna eru sóttir á flugvöllinn og keyrðir heim á hótel á limósínu. 
mbl.is