Kúluferðalög munu færast í vöxt

Kórónuveirufaraldurinn fær fólk til að hópa sig saman í kúlur …
Kórónuveirufaraldurinn fær fólk til að hópa sig saman í kúlur til þess að geta ferðast saman með öruggum hætti. Unsplash.com/Mesut Kaya

Tina Edmundsen markaðsstjóri hjá Marriott-hótelkeðjunni telur að svokölluð kúluferðalög (pod travel) muni færast í vöxt á komandi árum. Hótel þurfi að finna leiðir til þess að gera þessum hópum kleift að ferðast saman.

„Fjölskyldur og vinir ferðast saman í hópum og taka jafnvel yfir heilu hæðirnar eða álmurnar á hótelum. Þannig ná þau að skapa sína eigin kúlu og verjast Covid-smiti. Við erum í óðaönn að vinna með hótelum okkar og finna nýjar leiðir til þess að höfða til þessara hópa,“ segir Edmundson í viðtali við Penta.

Möguleikar kúluferðalaga virðast óteljandi. Hægt er að leigja villu, snekkju, tjaldsvæði eða hæð á hóteli þar sem hópurinn getur verið saman og einangrað sig frá öðrum. Á meðan allir huga að sóttvörnum fyrir ferðalagið og meðan á því stendur ætti hætta á smiti að vera lítil.

Luxury travel network skilgreinir kúluferðalög sem „hóp tveggja eða fleiri heimila sem hafa verið í einangrun og ætla að ferðast saman“.

mbl.is