Húsvíkingar vilja Óskarinn heim

Húsvíkingar vilja fá Óskarinn heim.
Húsvíkingar vilja fá Óskarinn heim. Ljósmynd/Rafnar Orri Gunnarsson

Á tæpum sólarhring eru 25 þúsund manns búin að horfa á myndband Húsvíkinga sem þeir framleiddu í þeim tilgangi að vekja athygli Óskarsakademíunnar á laginu Húsavík, úr Netflix-kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga. 

Lagið er á stuttlista fyrir tilnefningar til Óskarsverðlaunanna í ár og hafa spekingar erlendra miðla spáð laginu góðu gengi. 

Örlygur Hnefill Örlygsson, einn af þeim sem standa að baki verkefninu Óskar for Húsavík, segir í samtali við mbl.is að þau hafi ekki búist við svona góðum viðtökum og séu hissa á því hversu hratt erlendir miðlar tóku við sér. Bandarísku miðlarnir Variety og Vulture skrifuðu um myndbandið í gær og Eurovision-síðan Wiwibloggs sömuleiðis. 

Í myndbandinu má sjá leikarann Sigurð Illugason í hlutverki Óskars Óskarssonar sem biðlar til Akademíunnar að fá nafna sinn til Húsavíkur.

Örlygur segist vona að myndbandið geri mikið fyrir ferðamennsku á svæðinu og laði að bæði íslenska og erlenda ferðamenn þegar heimurinn opnast að nýju. 

Eurovision Song Contest-kvikmyndin var tekin upp að hluta til á Húsavík og sést mikið af bænum í kvikmyndinni. Örlygur hefur fengið skilaboð frá starfsmönnum hjá Netflix sem eru yfir sig ánægðir með nýja myndbandið og vonast auðvitað til þess að lagið hljóti gott gengi á Óskarsverðlaununum í ár.

Óskarsverðlaunahátíðin fer fram hinn 25. apríl næstkomandi en tilnefningar til verðlaunanna verða tilkynntar 15. mars. Kosning innan Óskarsakademíunnar hefst föstudaginn 5. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert