Varð ástfangin af Mývatnssveit

Rósa Matthíasdóttir er jógakennari og mun leiða jóganámskeið í sjálfsást …
Rósa Matthíasdóttir er jógakennari og mun leiða jóganámskeið í sjálfsást og sjálfsímynd á Vetrarhátíð við Mývatn. Ljósmynd/Aðsend

Jógakennarinn Rósa Matthíasdóttir varð ástfangin af Mývatnssveit þegar hún vann í ferðaþjónustunni þar. Nú um helgina og næstu helgi mun hún leiða jóganámskeið á Vetrarhátíðinni við Mývatn sem hófst í gær. Auk jóganámskeiðsins mun hún einnig kenna námskeið í akríltækni. 

Rósa er fædd og uppalin í Eyjafjarðarsveit en býr og starfar í Reykjavík. Hún er þó á miklu flakki og segir að draumurinn sé að verða ferða-jógína sem ferðist um landið með allt dótið í bílnum. 

„Ég er eitt af börnum Mývatnssveitar. Ég var að vinna þar í ferðaþjónustunni og varð bara ástfangin af Mývatnssveit. Það eru fáir staðir jafn fallegir og Mývatnssveit að vetri til,“ segir Rósa í viðtali við mbl.is. 

Rósa varð ástfangin af Mývatnssveit þegar hún vann þar.
Rósa varð ástfangin af Mývatnssveit þegar hún vann þar. Ljósmynd/Aðsend

Rósa segir Mývatnssveit mjög góðan stað til að stunda jóga á. „Maður verður ástfanginn af Mývatnssveit ef maður dvelur þar. Það er eitthvað töfrandi og kraftmikið. Það er gaman að kenna jóga í kringum hraunið og finna náttúruna svona nálægt sér. Það er svo gott að vera úti á landi þar sem er meiri ósnert náttúra,“ segir Rósa. 

Á morgun, sunnudag, mun hún leiða nidra-jógatíma í Jarðböðunum við Mývatn. Á fimmtudaginn hefst svo þriggja daga sjálfsástar- og sjálfsímyndarnámskeið sem kennt verður fimmtudag, föstudag og laugardag.

„Þetta er byggt upp af jógahugleiðslu og slökun. Ég mun byggja upp út frá orkustöðvunum. Að mínu mati byrjar öll sjálfsvinna og úrvinnsla á að finna kærleika í eigin skinni. Það er það sem ég leiði í tímunum mínum; að leiða þig að þér. Að leyfa þér að sjá þig eins og þú ert án þess að dæma sjálfan þig. Að leyfa þér að vera,“ segir Rósa. 

Rósa hefur kennt jóga í tæp 10 ár.
Rósa hefur kennt jóga í tæp 10 ár. Ljósmynd/Aðsend

Jógað hefur fylgt Rósu í tæpan áratug en hún stundaði jógakennaranámið hjá Jógasetrinu árið 2012 og er að kenna þar tíma. Á Vetrarhátíðinni við Mývatn mun hún kenna nidra-jóga en það er form jóga sem byggist á djúpri slökun, sem er gríðarlega mikilvæg fyrir okkur. 

„Maður þarf að læra að slaka, læra að hvíla sig, sem er æfing, stöðug æfing, alveg eins og þarf til að viðhalda þreki. Það er boðskapurinn sem mig langar til að dreifa því ég lenti sjálf í „burnouti“ og nidra-jóga kenndi mér að slaka og byggja mig aftur upp,“ segir Rósa. 

Rósa var hótelstjóri á Hótel Dalvík þegar hún lenti í kulnun en segir að sem betur fer hafi hún verið búin að læra jógakennarann þá. „Ég væri ekki endilega hér enn standandi í dag og svona spræk nema af því að jógað er með mér,“ segir Rósa.

Hún segir Mývatnssveit vera einn fallegasta stað í heiminum.
Hún segir Mývatnssveit vera einn fallegasta stað í heiminum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is