Keypti hús á Sikiley fyrir eina evru

Danny McCubbin er ánægður með lífið á Sikiley.
Danny McCubbin er ánægður með lífið á Sikiley. skjáskot/Instagram

Hinn 56 ára gamli Danny McCubbin keypti hús á Sikiley á Ítalíu fyrir eina evru á síðasta ári. Hann segir að þetta tilboð hafi ekki verið of gott til að vera satt og hvetur aðra til að kaupa líka hús á Ítalíu fyrir lítinn pening. 

Hinn ástralski McCubbin hafði búið í London á Bretlandi í 17 ár, en hann vinnur sem stafrænn ráðgjafi. Hann ákvað að grípa gæsina þegar hún gafst eftir að hafa lesið fréttir af því að bæjaryfirvöld á Skiley væru að bjóða þeim ódýrt húsnæði sem vildu flytja til bæjarins.

Fjölmargir bæir á Ítalíu hafa undanfarin tvö ár boðið ódýrt húsnæði þeim sem vilja flytja þangað. Í mörgum tilvikum er það háð þeim skilyrðum að kaupandi skuldbindi sig til að gera upp húsið innan ákveðinna tímamarka og til að búa ákveðið lengi í bænum. 

McCubbin sagði í viðtali við LadBible að sig hefði alltaf dreymt um að búa á Ítalíu og ákveðið að láta loksins til skarar skríða þegar hann sá tilboðið. Hann keypti hús í bænum Mussomeli á Sikiley. 

Eftir að hafa heimsótt bæinn þrisvar og skoðað 25 eignir fann hann draumaheimilið sitt. Hann stefndi upphaflega á að búa á Sikiley hluta ársins en ákvað vegna brexit að sækja um landvistarleyfi á Ítalíu.

Hann segir að það hafi verið ákveðin áskorun að flytja til bæjar þar sem hann þekkti ekki neinn en ákvað samt að ríða á vaðið. Nú ætlar hann að hjálpa þeim sem hafa sama draum og hann um að flytja til Ítalíu. Hann ætlar að setja á laggirnar sameiginlegt eldhús heima hjá sér þar sem þeir sem kaupa hús á eina evru geta haft aðstöðu á meðan þeir gera upp húsið sitt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert