Aldrei séð annan eins bílafjölda

Andstæðurnar í náttúrunni sjást vel á þessari mynd.
Andstæðurnar í náttúrunni sjást vel á þessari mynd. Ljósmynd/Gunnar Freyr Gunnarsson

Ljósmyndarinn Gunn­ar Freyr Gunn­ars­son hefur aldrei séð annan eins bílafjölda á einum stað á Íslandi og á veginum við gosstöðvarnar í gær. Gífurlega löng röð myndaðist meðfram veginum og hafa myndir og myndskeið sem Gunnar birti af bílalestinni vakið mikla athygli á Instagram-síðunni hans Icelandic Explorer. 

Gunnar fór í stutta ferð með þyrlu að eldgosinu á laugardaginn en fór í lengri ferð fótgangandi í gær, þriðjudag. Gunnar segir fínt að hafa ekki komist í lengri ferð fótgangandi fyrr en í gær þar sem þá var búið að stika leið að gosinu. „Við vorum mætt milli fimm og sex um morguninn,“ segir Gunnar sem fylgdist vel með veðurspánni. Hann sá sólina koma upp á leiðinni og segir ólýsanlegt að sjá sólina beint fyrir ofan gosið. 

„Þetta er svolítið bratt á einum kafla en annars er þetta ekkert svo slæmt. Í gær sá maður allskonar fólk fara þarna. Maður sá fólk með börnin sín, hundana sína og einnig eldra fólk. Allir að skoða gosið, bara frábært,“ segir Gunnar um leiðina. 

Gunnar myndaði langa bílaröð eftir að hann fór að skoða …
Gunnar myndaði langa bílaröð eftir að hann fór að skoða eldgosið á þriðjudaginn. Ljósmynd/Gunnar Freyr Gunnarsson

Gunnar segir að það hafi verið smá áfall að sjá alla bílana þegar hann kom aftur að bílnum sem hann var á. „Við vorum svo snemma á ferð að það var eiginlega enginn kominn þegar við mættum. Við lögðum alveg við stikuðu leiðina, í besta bílastæðinu. Við vorum á leiðinni til baka rétt eftir hádegi. Þá var mikið af fólki,“ segir Gunnar.

Hann lagði saman tvo og tvo á göngunni til baka og sá strax fyrir sér myndina af bílunum huganum. „Svo komum við niður og sáum alla bílana. Ég hef aldrei séð svona marga bíla á einum stað á Íslandi,“ segir Gunnar. Hann segir bílalestina hafa náð eins langt og augað eygði. Bílnarnir voru svo margir að þeir komust ekki fyrir á einni mynd.

Gunnar tók stórfenglegar myndir af gosinu.
Gunnar tók stórfenglegar myndir af gosinu. Ljósmynd/Gunnar Freyr Gunnarsson

Gunnar hefur fengið góð viðbrögð við myndunum af bílunum á Instagram. Fólki finnst frábært hversu gosið er aðgengilegt og öðrum finnst mjög áhugvert að sjá annan vinkil á gosinu en flestir birta myndir af eldgosinu sjálfu. 

Gunnar var snemma morguns við eldgosið.
Gunnar var snemma morguns við eldgosið. Ljósmynd/Gunnar Freyr Gunnarsson

Margir erlendir aðilar fylgja Gunnari á Instagram og hann er meðal annars í samstarfi við erlenda aðila. Hann finnur mikið fyrir auknum áhuga á myndunum sínum. „Það var rosalegur áhugi þarna fyrst og er í rauninni enn þá. Ég fékk ótrúlega mikið áhorf á það sem ég setti í „story“,“ segir Gunnar. Allir samstarfaðilar hans vilja fá myndefni frá gosinu. Hann er meðal annars að vinna myndir fyrir Canon en Gunnar er í samstarfi við myndavélaframleiðandann Canon á Norðurlöndunum. 

Hér fyrir neðan má sjá bílana sem Gunnar myndaði. Sjón er sögu ríkari. mbl.is