Elísa ætlar að klára heimsreisuna seinna

Elísa Margrét Pálmadóttir fór í heimsreisu í byrjun árs 2020.
Elísa Margrét Pálmadóttir fór í heimsreisu í byrjun árs 2020. Ljósmynd/Aðsend

Þann 1. janúar 2020 fór Elísa Margrét Pálmadóttir í heimsreisu með kærasta sínum, Hauki Guðjohnsen. Hún segist alltaf hafa haft áhuga á að ferðast en ferðaáhuginn jókst til muna þegar hún vann sem flugfreyja í hálft ár eftir menntaskóla. Ferðin í fyrra heppnaðist vel þrátt fyrir að henni hafi lokið nokkrum vikum fyrr en áætlað var vegna kórónuveirufaraldursins. 

Elísa fór í fyrsta skipti út fyrir Evrópu í flugfreyjustarfinu. 

„Ég fékk meðal annars að fara til Ísrael og Indlands og eftir það vissi ég að mig langaði til að ferðast meira um Asíu. Það var um það leyti sem kærasta mínum datt í hug að fara í saman í reisu eftir að grunnnámi okkar í háskólanum lyki. Þá dembdi ég mér í það verkefni að kynna mér mögulega áfangastaði og varð ljóst hvað það er í rauninni margt í boði. Við vorum ákveðin að fara til Afríku en vorum frekar lengi að velja á milli Suður-Ameríku og Asíu en Asía hafði vinninginn,“ segir Elísa um þá ákvörðun að fara í heimsreisu.

„Í þessu ferli fékk ég algjöra ferðabakteríu sem er komin til að vera! Mér fannst ótrúlega gaman að plana ferðina, þetta var fyrsta reisan okkar beggja. Við ákváðum að fara í hana með tveggja ára fyrirvara og söfnuðum okkur fyrir henni á þeim tíma.“

Elísa er með ódrepandi ferðabakteríu.
Elísa er með ódrepandi ferðabakteríu. Ljósmynd/Aðsend

Ekki gott að ferðast 1. janúar

„Við vorum búin að skipuleggja nánast allt, allt flug og flest hótel. Sumir staðir eins og Maldíveyjar eru vinsælir og þá er gott að bóka snemma en í mörgum löndum er hægt að komast upp með að plana sem minnst, kannski bara flug til og frá landinu. Plönin okkar breyttust bara einu sinni en við styttum Indlandsdvölina úr tveimur vikum í átta daga og skelltum okkur á ströndina í Taílandi. Þá vorum við komin með nóg af borgarlífinu og áreitinu í Indlandi og okkur langaði í slökun. Mér finnst samt mögnuð upplifun að vera í Indlandi og er planið að fara þangað aftur í framtíðinni og heimsækja fullt af fleiri stöðum.“

Elísa fór meðal annars til Maldíveyja.
Elísa fór meðal annars til Maldíveyja. Ljósmynd/Aðsend

Ferðalagið gekk vel fyrir sig en þau gerðu þó ákveðin mistök í upphafi og lögðu af stað 1. janúar sem Elísa segir ekki vera sniðugt. Dagurinn er einn stærsti ferðadagur ársins og fundu þau fyrir því auk þess sem þau voru lítið sofin. Við tók mjög langt ferðalag sem lauk í Kaíró í Egyptalandi. „Eftir á að hyggja er frekar fyndið að rifja þetta upp en við lærðum á þessu að plana flugtímann aðeins betur þar sem við vorum vakandi í kringum 48 tíma.“

Hvað lærðir þú á ferðinni sem þú myndir gera öðruvísi þegar þú ferð í næstu ferð?

„Það er ekki margt sem ég myndi breyta en ég myndi plana örlítið minna varðandi hótelgistingu sem gefur þá meiri sveigjanleika upp á hversu lengi maður vill vera á hverjum stað. Svo myndi ég pakka aðeins færri fínum fötum og fleiri þægilegum skyrtum þar sem hitinn var oft mikill. Annars var allt nánast fullkomið varðandi pökkun og plan. Svo muna bara að njóta!“

Í Mandalay í Mjanmar.
Í Mandalay í Mjanmar. Ljósmynd/Aðsend

Komin með „Afríkuveikina“

Elísa segir að öll Afríka hafi staðið upp úr. Þau fóru í 27 daga safaríferð frá Keníu til Suður-Afríku og heimsóttu meðal annars Tansaníu, Malaví, Sambíu og Simbabve. 

„Að fara í safarí og sjá þessi stóru fallegu dýr með eigin augum er upplifun sem á sér enga hliðstæðu. Ég sat í safaríbílnum með ljón um það bil metra frá mér sem var að hvíla sig í skugganum. Svona ferð gefur manni mikla nálægð við dýralífið en á sama tíma er maður alveg öruggur inni í bílnum. Svo er náttúran alveg gullfalleg og mér fannst gaman að sjá hana breytast eftir því sem við keyrðum sunnar. Einnig verð ég að nefna tvennt sem var alveg út fyrir þægindarammann fyrir mig en við fórum í teygjustökk yfir Zambezi-ána sem er við Viktoríufossa í Simbabve. Það var mjög gaman þó að við höfum bæði verið svolítið smeyk. Svo fórum við í loftbelgsferð í Bagan í Mjanmar og sáum þá sólarupprásina sem var alveg geggjað.“

Var ekkert mál að ferðast með kærastanum og vera svona mikið með honum?

„Nei, við höfum búið saman í nokkur ár svo að við erum vön að vera mikið saman. Auðvitað kom upp smá pirringur af og til þegar við vorum kannski að koma úr næturflugi, ósofin og svöng að lenda í heitu landi og orðin vel sveitt og tætt. En svo var alltaf jafn ljúft að komast á hótelherbergið sitt, fara í sturtu og leggjast í tandurhreint rúmið. Við vorum dugleg að skella hlaðvarpi í eyrun og slaka á ef við lentum löngum röðum á flugvöllum.“

Hefðir þú viljað vera styttra á einhverjum stað og lengur á einhverjum öðrum?

„Ég hefði getað verið lengur á mörgum stöðum til dæmis á eyjunni Sansibar við Tansaníu sem er algjör paradís en við vorum þar í tvær nætur með safaríhópnum okkar. Mér fannst ég fá smjörþefinn af öllum löndunum í Afríku og ég er algjörlega komin með „Afríkuveikina“. Mig langar aftur til bæði Sambíu og Simbabve því þar er náttúran alveg ótrúlega falleg, góður matur og svo er fólkið svo indælt. Ég hefði ég viljað kaupa af þeim föt og muni en litirnir og munstrin á flíkunum sem þau búa til eru svo falleg en því miður gátum við ekki borið minjagripi í töskunum okkar í svona langri ferð. Einnig kunni ég vel við mig í borginni Chiang Mai í Norður-Taílandi. Þar er svo margt að gera og góður matur, skemmtilegir markaðir og það var gaman að kynnast menningunni. Þangað langar mig að fara aftur og ferðast um sveitirnar og frumskóginn. Eini staðurinn sem við vildum stytta var Indland en það var einungis vegna þess að okkur langaði í strönd og rólegheit, við höfðum verið á frekar miklum þeytingi í Indlandi.“

Elísa og Haukur fóru í safaríferð í Afríku.
Elísa og Haukur fóru í safaríferð í Afríku. Ljósmynd/Aðsend

Drifu sig heim í mars í fyrra

Elísa segist vera þakklát fyrir að hafa náð tæpum þremur mánuðum af þeim fjórum sem þau Haukur voru búin að skipuleggja. Þau áttu meðal annars eftir að dvelja í Víetnam í þjár vikur og á Filippseyjum í þrjár vikur þegar þau ákváðu að fara heim vegna heimsfaraldursins. Þau sluppu þó nokkuð vel á meðan ferðinni stóð

„Við erum ótrúlega ánægð að hafa náð að vera svona lengi úti en það var ekki nema síðustu dagana sem veiran fór að hafa áhrif. Við vorum stödd í Mjanmar fyrstu tvær vikurnar í mars og þar var allt með kyrrum kjörum enda ekki mikil umferð inn og út úr landinu og kannski lítið verið að spá í veiruna á þeim tímapunkti. Stuttu seinna fóru löndin að loka hvert á fætur öðru og við sáum í hvað stefndi og drifum okkur heim. Við ætlum okkur að klára ferðina og eigum þessi lönd inni og bíðum bara þolinmóð og spennt eftir því!“

Elísa byrjaði með bloggsíðuna Chasing Sunsets eftir að hún kom heim. Bloggsíðuna nýtir hún til þess að deila fallegum ferðamyndum, fjalla um ferðalög og miðla sinni reynslu áfram. 

„Á blogginu get ég vonandi gefið einhverjum ráð eða innblástur sem er í ferðahugleiðingum. Mér finnst að við eigum ekki að vera hrædd við að ferðast og skoða þessa fallegu jörð sem við búum á,“ segir Elísa. Sjálf skoðaði hún mikið facebookhópinn Heimsfarar þegar hún var að skipuleggja reisuna. „Þar sá ég hversu mikil þörf var á því að geta leitað að heilli frásögn um áfangastaði. Enda er vel skiljanlegt að fólk hafi margar spurningar, sérstaklega þegar verið er að plana heimsreisu, eins og ég hafði sjálf á sínum tíma. Á bloggið mitt set ég oft skemmtilegar staðreyndir um land eða borg og nokkur ráð sem gott er að hafa bak við eyrað. Einnig fann ég fyrir miklum áhuga varðandi ferðalagið okkar og finnst mér sjálfsagt að deila því með öðrum.“


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert