Reyndi að opna dyrnar í háloftunum

Vél Spirit Airlines þurfti að nauðlenda í Denver í Colorado.
Vél Spirit Airlines þurfti að nauðlenda í Denver í Colorado. AFP

Vél flugfélagsins Spirit Airlines þurfti að nauðlenda í Denver í Colorado í Bandaríkjunum á miðvikudag eftir að farþegi reyndi að opna neyðarútgang í miðju flugi. 

Vélin var á leið til Los Angeles í Kaliforníu frá Cleveland í Ohio. Engan sakaði um borð samkvæmt Spirit Airlines. 

Farþeginn var handtekinn við lendingu í Denver en hann hafði ekki hlítt fyrirmælum áhafnarinnar um að reyna ekki að opna dyrnar og lét illa. 

Í tilkynningu frá Spirit Airlines kemur fram að aðrir farþegar hafi aldrei verið í neinni raunverulegri hættu þótt farþeginn hafi hamast á hurðinni. „Það er ómögulegt að opna í miðju flugi vegna loftþrýstingsins inni í farþegarýminu sem heldur hurðinni alveg fastri í opinu með svo miklu afli að ekki nokkur manneskja gæti opnað dyrnar,“ sagði í tilkynningu frá flugfélaginu.

mbl.is