Bretar frelsinu fegnir og ferðast innanlands

Slakað var á sóttvarnatakmörkunum í Bretlandi í gær og voru margir frelsinu fegnir. Gott veður hefur verið í höfuðborginni London undanfarna daga og nýttu margir tækifærið og gerðu sér glaðan dag í almenningsgörðum borgarinnar. 

Fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa fundið vel fyrir því að rýmri reglur hafi tekið gildi og hafa séð gríðarlegan fjölda bókana. Uppbókað var í fyrstu rútuferðina frá Manchester til London í gær, en rútan lagði af stað klukkan 00:01. Vegna sóttvarnareglna mátti þó aðeins selja í helming sætanna.

„Við höfum séð bókanir hrannast inn í dag. Það var mjög mikið að gera í ferðum milli Bristol og Manchester í dag,“ sagði talsmaður fyrir rútufyrirtækið Megabus. 

Bretar búa þó enn við töluverðar takmarkanir. Leyfilegt er að ferðast innanlands en þá eru dagsferðir aðeins leyfðar og landamærin frá Englandi yfir til Wales og Skotlands lokuð fyrir þeim sem ekki eru í brýnum erindagjörðum.

mbl.is