Páskarnir leti- og heimahátíð

Svanhildur Hólm Valsdóttir og Logi Bergmann Eiðsson.
Svanhildur Hólm Valsdóttir og Logi Bergmann Eiðsson. Ljósmynd/Aðsend

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, sér fram á að páskarnir í ár verði mjög svipaðir í páskunum í fyrra. Á síðasta ári máluðu hún og eiginmaður hennar, Logi Bergmann Eiðsson, stofuna og hlustuðu á hlaðvarpsþætti um minningargreinar.

Svanhildur hefur yfirleitt verið heima hjá sér á sjálfan páskadag en oft nýtt fríið í kringum páska til að ferðast. 

Hvað ætl­ar þú að gera um pásk­ana?

„Þessir páskar stefna í að verða mjög svipaðir páskunum í fyrra, sem sagt rólegir og í innan við tíu kílómetra radíus frá heimilinu, með hefðbundnu páskalambs og -eggjaáti.“

Sérðu fram á að stunda úti­vist um páskana?

„Við höfum ekki ákveðið neitt, en við viðrum okkur örugglega eitthvað ef veðrið er sæmilegt. Við hjónin erum nefnilega ekki með neitt fárviðrisblæti.“

Hef­ur þú ferðast er­lend­is um pásk­ana?

„Ég held að ég hafi alltaf verið heima á sjálfan páskadag, en hef oft farið utan í kringum páska. Þetta er til dæmis frábær tími til að vera í Washington og sjá kirsuberjatrén blómstra um alla borg.“

Washington D.C. í Bandaríkjunum er falleg á þessum tíma árs …
Washington D.C. í Bandaríkjunum er falleg á þessum tíma árs og mælir Svanhildur með heimsókn þangað þegar ástandið batnar. Ljósmynd/Aðsend

En inn­an­lands?

„Við höfum stundum farið norður þar sem fjölskylda mín býr. Ég held að ég sé samt að uppgötva yfir þessum spurningum að páskar hjá mér séu leti- og heimahátíð. Þegar ég var yngri var páskafríið þó aðalvélsleðatíminn og í minningunni eru páskar sól, snjór og lykt af bensíni með tvígengisolíu.“ 

Hvernig voru pásk­arn­ir í fyrra? Ferðaðist þú bara inn­an­dyra eins og þríeykið hvatti til?

„Þeir fóru í allsherjarvorhreingerningu og málningarvinnu á meðan ég hlustaði á fimm þætti í beit um minningargreinar á RÚV og horfði á fólk í göngutúr með börnin sín telja bangsa í gluggum götunnar. Þarna var Covid enn nýtt og maður nennti einhverju.“

Sérðu fyrir þér að skella þér til útlanda um páskana 2022?

„Akkúrat núna finnst mér allar setningar sem hafa að geyma orðið útlönd hljóma vel.“

Svona litu páskarnir 2020 út á heimili Svanhildar og Loga.
Svona litu páskarnir 2020 út á heimili Svanhildar og Loga. Ljósmynd/Svanhildur Hólm
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert