Skipuleggur morð í háfjallaloftinu

Lady Gaga og Adam Driver við tökur í ítölsku ölpunum.
Lady Gaga og Adam Driver við tökur í ítölsku ölpunum. Skjáskot/Instagram

Tökur fara nú fram á Ítalíu á kvikmyndinni House of Gucci sem fjallar um morðið á Maurizio Gucci sem eiginkona hans Patrizia Reggiani skipulagði. Kvikmyndin er tekin á fjórum stöðum í ítölsku Ölpunum, frá Aosta-dalnum í vestri til Dólómítafjalla í austri. 

Leikarinn Adam Driver fer með hlutverk Guccis en söngkonan Lady Gaga með hlutverk eiginkonu hans. Gaga birti mynd af þeim Driver í sínum fínustu skíðafötum frá 9. áratugnum á dögunum og vakti myndin töluverða athygli.

Í raunveruleikanum bjuggu þau Gucci og Reggiani í bænum St Moritz en þorpið Gressoney-Saint-Jean í Aosta-dalnum er notað í kvikmyndinni. Í Aosta er að finna fjöldann allan af heillandi skíðahótelum og frábærar skíðabrekkur. Þar má til dæmis finna Monterosa-skíðasvæðið sem er þekkt um alla Evrópu sem eitt besta svæðið til að fara í þyrluflug og skíða niður. 

Cortina D'Ampezzo er einnig eitt af þeim svæðum sem Lady Gaga og Driver hafa heimsótt í tökunum. Bæinn heimsótti Gucci sjálfur oft enda svæðið þekkt fyrir að vera áfangastaður ríka og fræga fólksins. Skíðasvæðið Alta Badia er í aðeins um klukkustundar akstursfjarlægð frá Cortina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert