Brynjar fór til Spánar um páskana

Níelsbræður saman á Spáni. Brynjar, Gústaf og Guðlaugur.
Níelsbræður saman á Spáni. Brynjar, Gústaf og Guðlaugur. Ljósmynd/Facebook

Alþingismaðurinn Brynjar Níelsson fór til Spánar um páskana. Þar heimsótti hann bróður sinn Gústaf Níelsson sem er búsettur á Spáni og konu hans. Með í för var annar bróðir Brynjars og makar. 

Gústaf greinir frá því á Facebook í dag að gestir hans séu á leið heim í dag með neikvætt kórónuveirupróf undir höndunum. 

„Nú er Lífsleikninámskeiðinu hinu meira lokið og bræður mínir og spúsur þeirra yfirgefa hinn sólríka Spán í dag og hefja bílrúðusköfun á Íslandinu kalda, að nýju. Stóðust þátttakendur lífsleikniprófið með glans og hafa undir höndum negatív kóvitsóttvarnapróf, sem er eiginlega eins og „Vottorð í leikfimi", líkt og idolið okkar Bjartmar söng um forðum og hlýða má á hér,“ skrifaði Gústaf og birti myndir af gestum sínum. 

Brynjar grillaði meðal annars páskalamb á Spáni auk þess sem hann skellti sér í golf. Brynjar greindi sjálfur frá ferðinni til Spánar í lok mars. 

„Sannleikurinn er sá að við Gulli bróðir fengum skilaboð að handan frá mömmu og pabba um að fara til Spánar til að koma einhverju skikki á líf okkar manns. Var lögð áhersla á að Soffía frænka kæmi með til að tryggja að okkar maður drægi okkur sakleysingjana ekki í sollinn. Að vísu hefur Soffía frænka aðeins sofið á verðinum en er komin með sópinn í hendina núna,“ skrifaði Brynjar á Facebook.

mbl.is