Stjórnendur YouTube hrifnir af eldgosamyndbandi Björns

Stjórnendur YouTube voru hrifnir af myndbandi Björns Steinbekk.
Stjórnendur YouTube voru hrifnir af myndbandi Björns Steinbekk. Samsett mynd

Stjórnendur YouTube rásarinnar hafa tekið myndband Björns Steinbekk af eldgosinu í Geldingadölum og deilt því með notendum sínum, m.a. í gegnum Twitter, en mánaðarlega horfa yfir tveir milljarðar manna á myndbönd á rásinni.

„Þetta er gríðarleg viðurkenning fyrir mig og þau myndbönd sem ég hef verið að taka með drónum frá því að eldgosið hófst. Ég hélt satt að segja að ekkert myndi toppa það þegar bandaríski leikarinn Will Smith deildi myndbandi frá mér af gosinu á Twitter, en þegar forráðamenn YouTube sýna það sjálfir hjá sér, verður maður hálf kjaftstopp,“ segir Björn.

Líkt og Björn segir sjálfur þá deildi Íslandsvinurinn Smith myndbandi hans og vakti það mikla athygli. Myndbönd af eldgosinu hafa því ratað víða á samfélagsmiðlum og í erlenda fjölmiðla.

mbl.is