Aldrei fleiri Íslendingar skoðað íshella

Íshellirinn í Breiðamerkurjökli er stórfengilegur.
Íshellirinn í Breiðamerkurjökli er stórfengilegur. Ljósmynd/YAY

Aldrei hafa fleiri Íslendingar farið í ferðir til að skoða íshella en í vetur. Þá hafa helgarnar í sveitum sunnan Vatnajökuls í Öræfasveit verið líflegar þegar ævintýragjarnir Íslendingar hafa gert sér ferð til að skoða náttúrulega íshella í undraveröldinni sem leynist undir Vatnajökli. Þetta segir Aron Franklin, eigandi Local Guide sem sérhæfir sig í jöklaferðum. 

Í Öræfum hefur þjónusta byggst upp seinustu ár og hefur bæst talsvert við gistingu og mat, þess vegna lítið mál að finna sér eitthvað við sitt hæfi. „Aðalíshellirinn í ár er í Breiðamerkurjökli og er hellirinn með þeim flottari sem við höfum haft seinustu þrjá vetur,“ segir Aron. 

Á veturna bráðna jöklarnir minna og þess vegna er tilvalið að skoða hellana í Vatnajökli á veturna þegar minna vatnsmagn er í jöklinum. Tímabilið til að skoða íshella í Vatnajökli er vanalega frá miðjum október fram til loka mars/byrjunar apríl. 

Local Guide hefur síðustu níu vetur boðið upp á daglegar brottfarir í íshella. „Í ferðinni er keyrt á sérútbúnum bílum í litlum hópum upp að jöklinum og svo leiðsegja sérþjálfaðir íshellaleiðsögumenn gestum um íshellinn, gestirnir hafa hingað til nær einungis verið erlendir ferðamenn og hægt hefur verið að telja íslenska á fingrum annarrar handar. Við höfum aldrei farið með eins marga Íslendinga í íshelli og þennan vetur,“ segir Aron. 

Íshellatímabilinu er lokið núna en nú búa leiðsögumennirnir sig undir sumarið. Í sumar verður boðið upp á jöklagöngu og ísklifur á Falljökli líkt og síðustu sumur.

Aldrei hafa fleiri Íslendingar skoðað íshella og nú í vetur.
Aldrei hafa fleiri Íslendingar skoðað íshella og nú í vetur. Ljósmynd/Helen María Björnsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert