Lék grillkóng í sumarfríum

Filippus prins, Elísabet Englandsdrottning og börn á fríi í Balmoral. …
Filippus prins, Elísabet Englandsdrottning og börn á fríi í Balmoral. Filippus grillaði í kastalanum. AFP

Filippus prins lést föstudaginn síðastliðinn. Hann var vanur þjónum og kokkum en þegar hann fór í frí í Balmoral-kastala á sumrin tók hann fram grilltangirnar. Það eru til margar sögur af grillveislum hans og minnist Harry Bretaprins afa síns sem grillmeistara. 

„Eigum við lax sem einhver í fjölskyldunni veiddi? Drottningin er búin að tína jarðarber með Margréti prinsessu, borðum þau í kvöldmat,“ sagði Filippus við starfsmenn í eldhúsinu að því er fram kemur á vef Hello. 

Ráðskona í Balmoral-kastala í Skotlandi sagði hjónin njóta þess að bjóða fjölskyldu og vinum í afslappaðar veislur í sumarfríinu. „Hertoginn eldar, drottningin gerir borðið klárt. Það er ekkert starfsfólk að þjóna.“

Í bókinni Queen of the World var greint frá því að Filippus hefði dregið grillið fram á ólíklegustu stöðum og væri ekkert sem hann grillaði ekki. Filippus væri fremstur í flokki með grillið en drottningin mætti seinna með salat og annað meðlæti.

Drottningin og eiginmaður hennar í Balmoral.
Drottningin og eiginmaður hennar í Balmoral. AFP
mbl.is