Farþegar beðnir að stíga á vigtina fyrir flug

Farþegar Air New Zealand þurftu að stíga á vigtina í …
Farþegar Air New Zealand þurftu að stíga á vigtina í dag. Ljósmynd/Pexels/Andres Ayrton

Farþegar flugfélagsins Air New Zealand sem ferðuðust með flugfélaginu í dag, 14. apríl, voru beðnir að stíga á vigtina áður en þeir fóru um borð. Hilary Barry, blaðamaður á Nýja-Sjálandi, var ein af þeim sem þurftu að stíga á vigtina í dag og var sagt að flugfélagið gerði þetta á fimm ára fresti. 

Þetta er gert til að reikna út meðalþyngd farþega og farangurs um borð til að geta metið hversu miklu eldsneyti vélin brennir. 

„Guð minn góður, Air NZ tilkynnti öllum í flugstöðinni að það væri að framkvæma könnun þar sem þyrfti að vigta farþega og handfarangur í dag. Það verður alls ekkert vandræðalegt. (Þau sögðu líka að þau þyrftu að gera þetta á fimm ára fresti),“ skrifaði Barry á Twitter.

Í svari til Independent staðfesti talsmaður flugfélagsins að farþegar hefðu verið vigtaðir í dag en þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur þar sem tölurnar væru ekki tengdar við nöfn farþega. 

„Til þess að gæta öryggis og afkasta í flugferðum okkar þurfum við að reikna út þyngd, jafnvægi og eldneytisþörf í hverju og einu flugi fyrir brottför. Til þess að gera það þurfum við að vita meðalþyngd farþega okkar, áhafnar og handfarangurs,“ sagði talsmaðurinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert