Flutti frá Íslandi fyrir 15 árum

Isabelle de Bisschop býr í Normandí í Frakklandi.
Isabelle de Bisschop býr í Normandí í Frakklandi. Ljósmynd/Aðsend

Isabelle de Bisschop fæddist í Frakklandi en hún á íslenska móður og franskan föður. Hún býr í Normandí í Frakklandi í dag en er enn með sterka tengingu við Ísland þar sem börn og barnabörn búa. Isabelle er löggiltur leiðsögumaður og hefur starfað sem slíkur í Frakklandi í 13 ár. 

Isabelle ólst upp í Frakklandi en árið 1990 flutti hún til Íslands ásamt tveimur börnum og þáverandi íslenskum eiginmanni. „Þar vann ég sem frönskukennari og bókasafnsvörður í Alliance Francaise sem er frönsk menningarmiðstöð,“ segir Isabelle um veruna á Íslandi. Eftir um 15 ár á Íslandi hélt hún aftur til Frakklands.

„Þegar ég flutti til Frakklands langaði mig strax til að fá Íslendinga hingað til Frakklands og kynna þeim það sem ég elska hér. Ég setti því saman og lóðsaði ferð til Bordeaux og Perigord-héraðs,“ segir Isabelle sem fór í kjölfarið að vinna fyrir bandaríska ferðaskrifstofu. Það er einlæg ósk hennar að kynna Íslendingum Normandí, sögu héraðsins, menningu, byggingarlist að ógleymdri matarmenningunni. „Einnig vil ég deila þeim fjölmörgu náttúruperlum sem eru í Normandí og skoða öll fallegu þorpin okkar fótgangandi með Íslendingum.

Mikil náttúrufegurð í Normandí.
Mikil náttúrufegurð í Normandí. Ljósmynd/Aðsend

Ég býð einnig upp á leiðsögn á íslensku um innrásarstrendur fyrir áhugafólk um seinni heimsstyrjöldina. Svo er ég með leiðsögn um Mont Saint Michel-klaustur og um borgirnar Caen eða Bayeux. Þessar ferðir eru þá ætlaðar Íslendingum sem að eiga leið hjá og vilja fá leiðsögn um ákveðið svæði eða minjar.

Matarmenningin í Frakklandi er einstök.
Matarmenningin í Frakklandi er einstök. Ljósmynd/Aðsend

Mér finnst fátt skemmtilegra en að útskýra það sem ég elska við Frakkland og muninn á því að búa í Frakklandi og á Íslandi. Tengsl okkar Frakka við matinn, hvernig við til dæmis förum hinum megin í borgina til að finna rétta baguette-brauðið, hvað það er alvarlegt mál að velja sætindi fyrir hádegismatinn á sunnudögum, hvernig við kvörtum undan öllu mögulegu, um „l'apero“ eða fordrykk. Svo er alltaf gaman að kenna nokkur vel valin orð á frönsku og líkamstjáningu.“ 

Sögufrægir staðir eru út um allt í Normandí.
Sögufrægir staðir eru út um allt í Normandí. Ljósmynd/Aðsend

Eftir að Isabelle flutti aftur til Frakklands fyrir 15 árum hefur hún búið í Normandí. „Normandí er mjög söguríkt hérað, en það er líka land víkinganna. Göngu-Hrólfur var fyrsti hertogi af Normandi, Vilhjálmur sigurvegari sem var hertogi af Normandí varð síðar konungur Englands, Jóhanna af Örk var dæmd og tekin á lífi í Rúðuborg og ekki má gleyma 6. júní árið 1944 þar sem átti sér stað stærsta hernaðaraðgerð á sjó allra tíma þegar 156 þúsund bandamenn stigu niður fæti í Normandí,“ segir Isabelle.

Isabelle, sem lærði reyndar list og listasögu í Marseille á sínum yngri árum, segir Normandí hafa verið vinsælan stað meðal impressjónista en málararnir heilluðust af birtunni og stöðugum breytingum í veðráttunni. Franski listmálarinn Claude Monet bjó til að mynda í Giverny þar sem hann málaði vatnaliljur. 

Fólk fer langt eftir góðu snittubrauði í Frakklandi.
Fólk fer langt eftir góðu snittubrauði í Frakklandi. Ljósmynd/Aðsend

Isabelle setti saman draumaferðina sína um Normandí í samvinnu við ferðaskrifstofuna Receptif-Ouest og tekur hún átta daga. „Ferðin er skipulögð eftir mínu höfði, svona eins og draumaferðin mín um þetta svæði myndi líta út. Við munum ferðast í litlum hópum og læra um sögu, list, tungumál og siði ásamt auðvitað mat og drykk. Skoðum náttúruna fótgangandi og gistum á „hôtels de charme“ eins og sagt er á frönsku sem útleggst eitthvað á þá leið að vera heillandi og falleg hótel sem ávallt eru vel staðsett.“

Hægt er að fá meiri upplýsingar um ferðaleiðsögn á facebooksíðunni Íslensk leiðsögn í Normandí.

Isabelle býr í Frakklandi.
Isabelle býr í Frakklandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is