Annars konar átök eftir kórónufaraldur

Það getur reynt á taugarnar að vera í löngu flugi …
Það getur reynt á taugarnar að vera í löngu flugi með grímu fyrir vitum. Unsplash.com/Camila Perez

Fyrir tíð kórónuveirunnar áttu ferðalangar það til að deila um hallandi sætisbök, það að snyrta sig um borð í flugvél eða haga sér illa vegna ölvunar. Nú hefur faraldurinn haft í för með sér annars konar átök. Deilur um notkun andlitsgrímna hafa til dæmis verið vaxandi. 

Fyrrverandi flugfreyjan Shawn Kathleen, sem bjó til hinn vinsæla instagramreikning Passenger Shaming, segir að jafnvel þótt fjöldi ferðamanna sé í sögulegu lágmarki haldi hún áfram að fá sendar myndir af ferðalöngum að haga sér illa.

Fólk ofbeldisfyllra

„Það eru tvenns konar breytingar sem ég er að greina. Almennt er fólk ofbeldisfyllra í hátterni og orðalagi. Fólk missir stjórn á sér um borð í flugvélum. Áður snerist þetta allt um hversu lýjandi það er að ferðast, maður þarf að leggja bílnum, fara í gegnum öryggisleit og allt það. Nú erum við búin að bæta við grímum og tveggja metra fjarlægð ofan á allt það,“ segir Kathleen í viðtali við Washington Post.

Mikið grímugrín í gangi

„Ég fæ mikið efni um andlitsgrímur. Fólk sendir mér myndir af fólki sem kann ekki að nota þær rétt. Það er til dæmis tilvik þar sem seinka þurfti vél og fjarlægja fólk úr vélinni því það fór ekki eftir tilmælum um grímunotkun.“

Það er ekkert nýtt að komi til átaka á milli fólks um borð í flugvélum. Áður var það þó helst vegna áfengisnotkunar, en nú er ekki haft áfengi um borð í vélum. „Nú er fólk bara pirrað út af öðru. Fólk hefur verið í einangrun, ég skil pirringinn en maður fer samt ekki að ráðast á fólk.“

Erfitt að ferðast í ástandinu

Sjálf segist hún vera á báðum áttum við tilhugsunina um ferðalög í þessu ástandi.

„Ferðalög eru skemmtileg en undir þessum kringumstæðum, að ferðast alls staðar með grímu fyrir vitum, vita aldrei hvort maður smitast eða ekki og að bóluefnin séu kannski ekki 100% örugg. Allt tekur þetta á taugarnar. Maður þarf að minnsta kosti að sýna mikla þolinmæði og þrautseigju ef maður ætlar að ferðast.“

Aðspurð um ferðaráð segir hún mikilvægt að vera vel undirbúinn. 

„Þú verður að gera heimavinnuna. Rannsaka áfangastaðinn, hvernig hlutirnir ganga fyrir sig. Vertu undir það búinn að þola seinkanir og vertu þolinmóður. Hlustaðu á áhöfnina, það geta gilt ólíkar reglur eftir flugfélögum. Þá er mikilvægt að sýna starfsfólkinu virðingu, það þarf að kljást við margt ólíkt fólk í erfiðum aðstæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert