Dreymdi íslenska náttúru þegar hún bjó í Kabúl

Brynja Huld Óskarsdóttir var landvörður á Hornströndum síðastliðið sumar.
Brynja Huld Óskarsdóttir var landvörður á Hornströndum síðastliðið sumar. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir

Brynja Huld Óskarsdóttir varði sumrinu 2020 á Hornströndum sem landvörður og segir upplifunina engu líka. Brynja er öryggis- og varnarmálafræðingur með sérhæfingu í hryðjuverkum og þykir það enn kómískara eftir því sem lengra líður á lífið að vera frá einum friðsælasta stað veraldar en veljast einhvern veginn inn í það að sérhæfa sig í hryðjuverkum. 

Brynja er fædd og uppalin á Ísafirði og er líka með lögheimili þar. Hún hefur hins vegar búið á mörgum stöðum, í London, París og fleiri stöðum í Frakklandi. Hún eyddi líka ári á herstöð í Kabúl í Afganistan sem verður að teljast algjör andstæða við hinar friðsælu Hornstrandir. 

„Ég var landvörður á Hornströndum, sem er að mínu hlutlausa mati eitt fallegasta landsvæði Íslands. Langafi minn átti hús á Hesteyri sem erfðist til afa míns og systkina hans og þegar ég var lítil vorum við fjölskyldan og systkini mömmu og frændsystkini mín iðulega öll sumarfrí á Hesteyri sem er í Hornstrandafriðlandinu. Þegar leið að unglingsárunum man ég eftir að hafa fundist eitthvað smá lummó að fjölskyldan væri ekki að fara í pakkaferðir til Costa del Sol eða hvert allir voru að fara á þeim árum, en áttaði mig svo auðvitað seinna á því hversu dýrmæt perla það var að alast upp við að vera fleiri vikur á sumri hverju á Hesteyri og svæðinu í kring,“ segir Brynja Huld í viðtali við ferðavef mbl.is. 

Horft upp Hesteyrarhlíðar.
Horft upp Hesteyrarhlíðar. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir

Brynju hafði lengi dreymt um að vera landvörður eða frá því að hún hafði fyrst heyrt af starfi landvarða. Eftir að hafa eytt ári í herstöð í Kabúl í Afganistan þar sem hún hafði töluvert minna aðgengi að náttúru áttaði hún sig á því hvað hún saknaði íslensku náttúrunnar. 

„Mig dreymdi oft að ég væri að fljóta í íslenskum sjó eða vakna í þúfubreiðu. Svo kom ég heim eftir ársdvöl Kabúl og keyrði Reykjanesbrautina, sem mér hafði aldrei þótt neitt æðisleg, í súld á miðnætti og leið eins og ég hefði aldrei upplifað neitt eins fallegt og vildi nú endilega gera það að starfi mínu að vernda náttúruna,“ segir Brynja. 

Brynja segir litla hliðarsögu tengda náttúrunni en þegar hún var lítil horfði hún margoft á Disney-myndina um Pocahontas og hafði hún sterk áhrif á hana. 

„Ég trúði því, held ég í raun, að ef ég væri nógu mikið úti að leika mér í náttúrunni myndi ég breytast í Pocahontas. Það hefur ekki alveg raungerst, en ég tengi samt ennþá mjög sterkt við ástina sem Pocahontas ber til náttúrunnar,“ segir Brynja. 

Vinir um miðnætti á Straumnesfjalli.
Vinir um miðnætti á Straumnesfjalli. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir
Slóðalagfæringar eftir fárveður í júlí.
Slóðalagfæringar eftir fárveður í júlí. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir

Með áhuga á fólki og sterkt „reddara-element“

„Ég hafði enga reynslu af starfinu en hafði eitt og annað í farteskinu sem nýtist í starfið. Mér þykir svona heilt á litið frekar vænt um fólk almennt og gaman að vita hvaðan fólk er að koma og hvert það er að fara, með mikla þjónustulund og talar nokkur tungumál og er með frekar mikið reddara-element. 

Svo er auðvitað enginn staður á jörðinni sem mér finnst eins dýrmætur og friðlandið á Hornströndum, sem ég held að sé klárlega það mikilvægasta í að vera góður landvörður, en það er vandasöm list að ná að miðla þeirri væntumþykju til gesta á svæðinu svo þeir fái sömu tilfinningu og upplifi að við séum saman í liði og gangi þar með um svæðið af virðingu,“ segir Brynja.

Miðnætti á Hesteyri í miðjum ágúst.
Miðnætti á Hesteyri í miðjum ágúst. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir

Þar sem Brynja hafði ekki starfað áður sem landvörður vissi hún ekki nákvæmlega við hverju hún ætti að búast með tilliti til fjölda ferðamanna, auk þess sem heimsfaraldur geisaði og erlendir ferðamenn færri en í venjulegu árferði. 

„Ég hélt að það yrði ekki mikið um ferðamenn, og ef það yrðu ferðamenn þá yrðu það bara Íslendingar. Fyrstu útlendingarnir sem ég hitti voru ítalskt par og ég var svo útlandaþránuð eftir covid-vorið mikla og spennt yfir því að á landinu væru gestir af erlendu bergi brotnir að ég hrópaði „WELCOME“ að þeim og spurði þau spjörunum úr. Hvernig veðrið hefði verið á Ítalíu fyrir brottför, hvernig maturinn og vínið væri, hvaða leið þau hefðu flogið til Íslands og þar fram eftir götunum. Þau hafa án efa haldið að ég væri orðin tæp af einveru. Svo leið á sumarið og það var í raun nokkuð jöfn skipting á milli Íslendinga og erlendra gesta á svæðinu,“ segir Brynja. 

Það væsti ekki um Brynju í landvarðabústaðnum.
Það væsti ekki um Brynju í landvarðabústaðnum. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir

Friðurinn það besta við landvarðastarfið

Brynja segir að næðið og náttúran sé það besta við landvarðastarfið. Í því fékk hún líka frið frá samfélagsmiðlum og fréttamiðlum og frið til þess að hugsa. Og hún fékk næði til að borða núðlur í öll mál án þess að einhver fetti fingur út í það.

„Við erum orðin svo ótrúlega ótengd náttúrunni og erum alltaf að drífa okkur allt, sjaldan sem við höfum tækifæri til að vera í náttúrunni í lengri tíma. Og í landvarðastarfinu gefst tækifæri til að tengjast náttúrunni og vera í henni í fleiri vikur, sem getur ekki annað en gert fólki gott. Draumurinn er auðvitað að ná að miðla því til gesta sem koma inn á svæðið, og gera þeim kleift að njóta, í stað þess að þjóta, og ná þannig að upplifa friðinn í Hornstrandafriðlandinu, sem ég held að náist ekki sé fólk einungis mætt til að „tékka“ eitthvað út af einhverjum lista,“ segir Brynja. 

Júlíkvöld á Hesteyri.
Júlíkvöld á Hesteyri. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir

Íslendingar ferðuðust að mestu leyti innanlands síðastliðið sumar, en ekki Brynja, hún ferðaðist bara innan friðlandsins á Hornströndum.

„Ég ferðaðist hreinlega eiginlega ekkert í sumar. Ég var í landvörslu á Hornströndum allan júlímánuð og nánast allan ágústmánuð svo það gafst ekki mikill tími til ferðalaga. En ég ferðaðist um allt Hornstrandafriðlandið á tveimur jafnfljótum og það var besta ferðalag sem ég hefði getað hugsað mér þetta sumarið. Ég gekk hátt í 400 kílómetra og fékk að upplifa náttúruna á öllum tímum sólarhrings þessa tvo mánuði,“ segir Brynja.

Leifar herstöðvarinnar á Straumsnesi.
Leifar herstöðvarinnar á Straumsnesi. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir

En hvað var það sem stóð upp úr?

„Landvarðarstarfið á Hornstöndum stóð ekki bara upp úr sumrinu heldur hreinlega var það hápunktur ársins 2020. Miðnætti við herstöðina á Straumnesi, skemmtilegir gestir, stundum erfiðir gestir, langir göngudagar til að ná á milli staða, sjósund, það að fá að upplifa náttúruna á ólíkum tímum sumars í ólíkum veðrum. 

Það var líka ágætis lærdómur fyrir konu sem heldur að henni sé ekkert ofviða að átta sig á að ég hefði ekki roð við eyðileggingunni sem ofsaveðrið upp úr miðjum júlí olli á 70-90 ára gömlum slóðum. Auðvitað margt fleira erfitt og ég var nú nokkuð buguð vikuna eftir hamfararigninguna í miðjum júlí.

Á Hesteyri hefur landvörður frekar illa leikið eldhústjald sem afdrep og gistir í venjulegu tjaldi, það var oft við frostmark á nóttunni þessa daga eftir þetta veður í júlí og það er töluvert erfiðara að halda dampi köld og blaut en í þurru, björtu og hlýju,“ segir Brynja.

Eldhústjald landvarða á Hesteyri.
Eldhústjald landvarða á Hesteyri. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir
Útsýnið á Hornströndum er gullfallegt.
Útsýnið á Hornströndum er gullfallegt. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir
Horft af Straumnesfjalli yfir til Fljótavíkur á miðnætti.
Horft af Straumnesfjalli yfir til Fljótavíkur á miðnætti. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir
Brynja gekk hátt í 400 kílómetra innan friðlandsins á Hornströndum.
Brynja gekk hátt í 400 kílómetra innan friðlandsins á Hornströndum. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir
Tófur eru best félagsskapur landvarðar.
Tófur eru best félagsskapur landvarðar. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir
Hesteyrarfjörður og minni Jökulfjarða úr hlíðum Kistufells.
Hesteyrarfjörður og minni Jökulfjarða úr hlíðum Kistufells. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir
Síðasti sundsprettur sumarsins.
Síðasti sundsprettur sumarsins. Ljósmynd/Brynja Huld Óskarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert