Kviknaði í brotnum síma undir flugsæti

Síminn var af gerðinni iPhone frá Apple.
Síminn var af gerðinni iPhone frá Apple. Ljósmynd/Pexels/PhotoMIX

Eldsupptök í flugi frá Miami í Bandaríkjunum til London í Bretlandi 1. október má rekja til þess að sími rann undir sæti og brotnaði þegar farþeginn rétti úr sæti sínu. Þetta kemur fram í rannsókn bresku flugslysanefndarinnar, AAIB. 

Í skýrslunni segir að áhafnarmeðlimir hafi tekið eftir reyk í kringum sæti farþegans þegar vélin var að hefja aðflug. Farþeginn, sem var á premium-farrými, hafði reist sætið í upprétta stöðu um 40 mínútum fyrir lendingu. 

Þegar flugþjónninn var að ganga frá teppi og kodda farþegans fann hann skrítna lykt sem ágerðist. 

„Þarna voru þau farin að heyra hvisshljóð og mikinn gráan reyk lagði frá sætinu. Þau muna eftir að hafa séð appelsínugulan lit lýsa upp sætið í reykjarmekkinum,“ segir í skýrslunni. 

Flugþjónn slökkti eldinn með slökkvitæki og fundu flugþjónarnir svo brotinn síma af gerðinni iPhone sem hafði dottið undir sætið og brotnað þegar sætið var rétt við. Engum varð meint af og vélin lenti á Heathrow skömmu seinna.

mbl.is