Bjóða ferðamönnum frítt bóluefni

Ferðamenn sem koma til Alaska í Bandaríkjunum í sumar geta …
Ferðamenn sem koma til Alaska í Bandaríkjunum í sumar geta fengið fría bólusetningu við kórónuveirunni. Ljósmynd/Twitter

Alaskaríki í Bandaríkjunum ætlar að bjóða öllum ferðamönnum sem sækja ríkið heim í sumar fría bólusetningu. Ríkisstjórinn Mike Dunleavy tilkynnti þetta á upplýsingafundi í síðustu viku og sagði áætlunina vera lið í því að laða að fleiri ferðamenn.

Frá og með 1. júní næstkomandi munu því allir óbólusettir ferðamenn sem koma til flugvallanna Anchorage, Juneau, Ketchikan og Fairbank geta fengið fría bólusetningu. 

Bóluefni frá Pfizer og Moderna verða notuð og geta ferðamenn fengið seinni skammtinn af bóluefnunum ef þeir dvelja lengur en 21 til 28 daga. 

Bólusetningarstöðvarnar verða prófaðar á Anchorage-flugvelli í fimm daga í lok apríl. 

Heilbrigðisráðherra Alaska, Heidi Hedberg, segir að bólusetningarstöðvarnar verði fyrir utan öryggisleitina á flugvöllunum og ítrekaði að það væri nóg til af bóluefni fyrir alla íbúa í Alaska og erlenda ferðamenn.

New York Times

mbl.is