Féll fyrir eiginmanninum og útivistinni

Birgir og Ásthildur stunda útivist saman.
Birgir og Ásthildur stunda útivist saman. Ljósmynd/Aðsend

Ásthildur Björnsdóttir, viðskiptastjóri hjá Vistor, er dugleg að ferðast um landið hvort sem það eru stuttar fjallgöngur eftir vinnu, dagsferðir um helgar eða lengri ferðir upp á hálendið með tjaldið í skottinu á gömlum Land Rover-jeppa. 

„Útivistarbakterían hófst þegar ég kynntist eiginmanninum Birgi Gunnarssyni á síðustu öld eða fyrir um 27 árum þar sem hann var á fullu í fjallgöngum og slíku. Útivistin hefur verið mismikil öll þessi ár og datt til dæmis nánast alveg niður þegar við bjuggum í Hollandi í tæp fimm ár en eftir að við komum aftur heim 2017 höfum við verið mjög mikið í gönguskónum.“

Ásthildur býr í Mosfellsbæ og er heppin að því leytinu til að það er mjög stutt í fellin í kring um bæinn auk þess sem það er stutt í fjöll á borð við Esjuna.  

„Mér finnst dásamlegt að skjótast á fjall eftir vinnu. Þar hleð ég batteríin og nýt þess að reyna aðeins á mig. Þá förum við oft um helgar í dagsferðir og erum þá búin að spotta út hvar veðrið er best eða skást. Mér finnst mjög gaman að fara á nýjar slóðir og er alltaf að fá fleiri hugmyndir að skemmtilegum gönguleiðum með því að grúska í bókum og eins fæ ég fullt af hugmyndum þegar vinir á Facebook eða Instagram birta myndir úr ferðunum sínum.“

Ásthildur er dugleg að skjótast upp á fjöll og fell …
Ásthildur er dugleg að skjótast upp á fjöll og fell eftir vinnu. Ljósmynd/Aðsend

Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi? 

„Þórsmörkin finnst mér alltaf dásamleg. Það er sama á hvaða árstíma komið er þangað; það er alltaf eitthvað nýtt að sjá og náttúrufegurðin og orkan úr fjöllunum og jöklunum er dásamleg. Nú hef ég gengið Fimmvörðuháls ansi oft og það er alltaf jafn gaman og stórfenglegt þegar komið er niður í Þórsmörkina.“

Ljósmynd/Aðsend

Er eitthvað sem þú átt eftir að gera? 

„Ég á Vestfirðina alveg eftir og sé Hornstrandir í hillingum!“

Eins og margir ferðaðist Ásthildur mikið innanlands síðasta sumar. 

„Það sem ég tók með mér eftir öll ferðalögin í fyrra er kannski þá helst að flýta sér hægt og taka sér góðan tíma á hverjum stað og vera ekki að keyra landshornanna á milli á örfáum dögum. Auðvitað er maður oft að eltast við góða veðrið en það er um að gera að vera þá þannig búinn að geta verið úti þrátt fyrir smá rigningu og rok. Þetta er jú auðvitað Ísland þar sem við getum fengið allar veðurútgáfur á einum og sama deginum.“

Ásthildur og Birgir eiga núna jeppa sem fleytir þeim lengra en venjuleg fólksbifreið. Hún segir þó jeppa alls ekki nauðsynlega í útivistina.

„Jeppinn kom svolítið af sjálfu sér þar sem við höfum ferðast mikið og var farið að langa til að komast lengra en venjuleg fólksbifreið ræður við – eins og til dæmis yfir ár og þess háttar. Við eigum núna gamlan Land Rover Defender sem við notum eingöngu í ferðalög. Það er búið að breyta bílnum, hækka hann upp og setja á stærri dekk þannig að við getum farið á flesta staði á hálendinu yfir sumartímann.“

Ásthildur og Birgir fara í lengri ferðalög á gömlum Land …
Ásthildur og Birgir fara í lengri ferðalög á gömlum Land Rover Defender. Ljósmynd/Aðsend

Þegar Ásthildur er spurð hvort hún kjósi tjald eða hjólhýsi segir hún tjaldið hafa vinninginn. 

„Við leggjum ekki upp með mikinn lúxus í tjaldmálunum, eigum eitt göngutjald og annað aðeins stærra. Síðan nýtum við okkur skála ferðafélaganna á hálendinu þegar það hentar. Planið er samt að fá sér einhvern tímann topptjald sem er þá haft á toppgrindinni ofan á bílnum. Þá tekur það aðeins eitt lítið augnablik að tjalda og verður frábært þegar skyndiákvarðanir eru teknar um svefnstað.“

Ásthildur sefur í tjaldi á ferðalögum.
Ásthildur sefur í tjaldi á ferðalögum. Ljósmynd/Aðsend


Ásthildur nýtti veturinn í að læra á gönguskíði. Hún fór á námskeið með vinkonum sínum og lærði að standa í fæturna og standa upp eftir byltu, sem skiptir máli á gönguskíðum. 

„Þrátt fyrir að vera nýbyrjuð er ég búin að ná að fara á gönguskíði á Akureyri, Húsavík og svo í Bláfjöllum og ætla svo sannarlega að halda ótrauð áfram. Væri gaman að fara á Siglufjörð og eins á Ísafjörð næsta vetur.“

Ásthildur byrjaði nýlega á gönguskíðum.
Ásthildur byrjaði nýlega á gönguskíðum. Ljósmynd/Aðsend

Hvað ætlar þú að gera í sumar?

„Í sumar er planið að ferðast sem mest hér innanlands. Planið er að byrja í tjaldútilegunum strax í maí og nýta einnig sem mest allar helgarnar í þá styttri og lengri ferðir. Það eru ýmsir staðir sem mig langar að ferðast til og sjá, enda af nógu að taka hér í allri þessari mögnuðu náttúru. Mér dettur strax í hug staðir eins og Borgarfjörður eystri og trítla til dæmis um Stórurðina, fara upp á hálendið og þramma um Landmannalaugar og svæðið allt um kring og þá stendur Fimmvörðuháls ávallt fyrir sínu. Möguleikarnir eru endalausir og þetta er eiginlega bara spurning um hvert veðrið leiðir okkur.“

Ásthildur við Stuðalberg. Hún nýtti fyrrasumar til að ferðast innanlands.
Ásthildur við Stuðalberg. Hún nýtti fyrrasumar til að ferðast innanlands. Ljósmynd/Aðsend

Ásthildur ráðleggur byrjendum að eiga góða gönguskó. Því næst mælir hún með góðum göngusokkum og að klæðast ull hvort sem það er sumar eða vetur. Það skipti líka miklu máli að skoða veðurspána og gera ráð fyrir að það gæti mögulega rignt, gott sé að hafa gönguföt í bakpokanum ásamt góðu nesti.

„Þegar ákveðið hefur verið að arka af stað mæli ég með að byrja rólega og fara í stuttar ferðir, svo er alltaf hægt að fara í lengri ferðir þegar líður á. Hér á höfuðborgarsvæðinu er mjög mikið úrval af alls kyns flottum styttri gönguleiðum sem eru stikaðar. Til dæmis Heiðmörkin og öll fellin, eins og Helgafell í Hafnarfirði og hér í Mosó erum við líka með eitt krúttlegt Helgafell. Svo eru fleiri fell eins og Úlfarsfell, Reykjafell, Mosfell og auðvitað Esjan.“

Ljósmynd/Aðsend

„Esjan býður reyndar upp á ansi margar gönguleiðir og þá sérstaklega þegar fólk er komið af stað í fjallgöngunum. Að ganga upp að Steini er klassískt en svo er það Kerhólakamburinn og Móskarðshnjúkarnir. Þá er til dæmis mjög gaman að ganga um í Blikdalnum sem er lengsti dalurinn í Esjunni. Svo er heill ævintýraheimur hér rétt hjá sem er Hvalfjörðurinn, þar eru einstaklega flott og skemmtileg fjöll sem hægt er að ganga á og frábært útsýni.“

Góðir gönguskór koma sér vel.
Góðir gönguskór koma sér vel. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is