Anna Kristjáns bólusett á Tenerife í dag

Anna Kristjánsdóttir fær bóluefni í dag.
Anna Kristjánsdóttir fær bóluefni í dag.

Vélstjórinn Anna Kristjánsdóttir var bólusett í dag. Anna, sem er 69 ára og búsett á Tenerife, hafði ekki fengið boð um að koma í bólusetningu en fór á stúfana í gær. Þá fékk hún vilyrði fyrir sprautu í dag og fagnaði ákaft í nýjasta pistli sínum á Facebook.

„Ég var nýkomin úr ferð númer 16 á Stóru-Klif í gærmorgun, uppfull af orku og hreysti og tilbúin í hvað sem er þegar ég mundi skyndilega að ég hafði gleymt að kynna mér skýringu þess að ég hefði ekki fengið boðun í sprautu á heilsugæslunni. Ég rölti því á heilsugæsluna hér í Paradís um eftirmiðdaginn í gær og bar mig illa, hefði ekki séð börnin mín í tvö ár og bað um Coviðsprautu svo ég gæti hitt blessuð börnin mín,“ skrifar Anna. 

Anna segir að þjónustufulltrúarnir hafi ekki trúað henni í fyrstu en þá greip hún til gamalkunns ráðs og tók úr sér heyrnartækin. 

„Merkilegt hvað gömul heyrnartæki geta haft mikil áhrif á viðmælendur mína. Kannski var ég ekki alveg eins ung og ég þóttist líta út fyrir að vera og þær fylltust samúð með vesalings heyrnardaufri konunni sem hafði ekki séð litlu börnin sín í tvö ár (sem er næstum því rétt, en börnin eru 45, 43 og 39 ára). Að lokum féllust þær á að gefa mér tíma í sprautu í dag klukkan 09:35. Ég fór nánast dansandi út úr heilsugæslustöðinni,“ skrifar Anna. 

Hún velti því fyrir sér hvaða bóluefni henni yrði boðið en hún þekkir til fólks sem hafði fengið að velja úr tveimur bóluefnum. Í uppfærslu klukkan 10:15 greindi Anna svo frá því að hún hefði dottið í lukkupottinn og fengið bóluefni Pfizer.

mbl.is